30.03.1928
Efri deild: 61. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2046 í B-deild Alþingistíðinda. (1045)

3. mál, landsreikningar 1926

Jón Þorláksson:

Mig langar til að gera aths. við landsreikninginn fyrir árið 1926, þó að jeg þykist vita, að hæstv. fjmrh. hafi veitt því athygli, sem jeg ætla að benda á. Landsreikningurinn sýnir 200 þús. kr. tekjuhalla. Í yfirliti mínu í þingbyrjun 1927 var gert ráð fyrir, að tekjur og gjöld stæðust á, en það hefir komið mismunur, sem stafar af ýmsum ástæðum. Jeg vil benda á stærsta liðinn, sem er sá, að það hafa ekki komið tekjur til ríkissjóðsins, sem ætlast var til að kæmu frá áfengisverslun ríkisins. Reikningurinn ber þetta með sjer, en varla nema þeim, sem kunnugir eru. Það var svo lagt fyrir; að áfengisverslunin skyldi greiða í ríkissjóð vexti af stofnfje því, sem ríkissjóður hefir lagt henni, og eru þeir tilfærðir í reikningnum sem innieign ríkissjóðs og áfengisverslunin talin skulda ríkissjóði 44 þús. kr., sem ætlast var til, að kæmu, áður en reikningnum fyrir 1926 var lokað. Með þessu hafði jeg reiknað. Ennfremur ber þessi reikningur með sjer, að í ársbyrjun 1926 er höfuðstóll — áfengisverslunarinnar 740 þús. kr. Hjer við hafði verslunin fengið leyfi til að bæta 160 þús. kr., en þar með átti þeirri fjársöfnun að vera lokið. En í stað 160 þús. kr. er bætt við 300 þús. kr., svo að 140 þús. kr. standa inni hjá áfengisversluninni, þegar þessir reikningar voru gerðir upp, af því fje, sem henni bar að borga inn í ríkissjóð. Það eru því 184 þús. kr., sem áfengisverslunin hefir átt ógoldið til ríkissjóðs af tekjum sínum fyrir árið 1926, og hafði jeg reiknað með því í yfirliti mínu, að sú upphæð kæmi inn, áður en LR fyrir '26 yrði lokið. Með þessu er að mestu gerð grein fyrir mismuninum í landsreikningnum, en jeg vildi benda hæstv. fjármálaráðh. á þetta, því að svo var ekki til ætlast af fyrv. stj., að þetta rynni til áfengisverslunarinnar, heldur til ríkissjóðsins. Og þessi greiðsla á að geta farið fram ennþá, ef hún ekki þegar hefir farið fram.