02.03.1928
Neðri deild: 37. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 615 í B-deild Alþingistíðinda. (105)

1. mál, fjárlög 1929

Hjeðinn Valdimarsson:

Á undanförnum þingum hefir verið borin upp till. í þá átt, að skólagjöldin við ríkisskólana fjellu niður, en ekki fundið náð fyrir augum þingsins. Við flm. hugsuðum, að þingið væri nú öðruvísi skipað, og bárum því fram till. Samt virðist fjvn. ekki vera till. neitt sjerstaklega velviljuð, en jeg vona, að deildin reynist betur. Því hefir oft verið lýst, hve erfitt er fyrir fátæka nemendur að stunda hjer nám og hversu mikill baggi fátækum foreldrum er að skólagjöldunum. Nú hafa þinginu borist áskoranir frá foreldrum mentaskólanemenda og fleirum um að kippa þessu í lag. Virðist varla þurfa að orðlengja um það, svo augljóst sem það er, að Alþingi stuðli að því; að til skólanna veljist sem gáfaðastir og færastir piltar, og ekki sem ríkastir eingöngu, en skólagjöldin tálma því, að fátækir piltar, þó að vel gefnir sjeu, geti gengið þessa braut. Það kann að vera, að það sje fult í skólanum, en það á ekki að takmarka nemendatöluna með skatti af kenslunni. Auk þess er þetta lítil upphæð fyrir ríkissjóðinn, þó að piltana eða aðstandendur þeirra dragi um hana, og vona jeg, að brtt. verði samþykt.

Þá er það hjúkrunarfjelagið „Líkn“. Meðlimir þess eru í ýmsum stjettum og lifir fjelagið á árstillögum þeirra, samskotum og opinberum styrk. Það hefir hjúkrunarstöð fyrir berklaveika, sem Sigurður Magnússon læknir starfar við endurgjaldslaust. Auk þess hefir það 2 eða 3 hjúkrunarkonur, sem hjúkra fátæklingum hjer í bæ fyrir ekki neitt. Fjelagið gerir mikið gott, enda er það viðurkent með styrk úr bæjarsjóði Reykjavíkur og ríkissjóði.

Úr bæjarsjóði er því veittur 4000 kr. styrkur og brtt. mín fer fram á, að styrkur ríkisins verði hækkaður úr 3500 .kr. upp í sömu upphæð. Hygg jeg, að þessar 500 kr. ættu ekki að vera þyrnir í augum fjvn.