05.03.1928
Neðri deild: 39. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2064 í B-deild Alþingistíðinda. (1062)

24. mál, hegningarlög

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg þarf aðeins að segja nokkur orð vegna ræðu hv. þm. Dal. Hann dregur í efa, að rjett sje að taka slæpingja og láta þá vinna. Hann heldur, að ekki sje þörf á því og tilfinning þjóðarinnar muni ekki krefjast þess.

Ástæðan til þess, að ekkert hefir orðið úr framkvæmdum í þessu efni fram til þessa, er sú, að skilyrði hefir vantað til að framkvæma slíkt aðhald. Það er ekki von, að einstök heimili vilji taka að sjer menn, sem ekki nenna að vinna, og halda þeim til starfsins.

Jeg hefi þótst verða þess var, að þær ráðstafanir, sem hjer er um að ræða, hefðu góðan byr hjá þjóðinni. Að vísu dettur mjer ekki í hug, að þær mælist vel fyrir hjá öllum, síst hjá slæpingjum, en hitt veit jeg, að fjöldi dugandi manna er þeim mjög fylgjandi. Þær eru einmitt í góðu samræmi við skoðanir meginhluta af atorkumönnum þjóðarinnar. Auðvitað vil jeg ekki með þessu segja, að allir, sem á móti eru, sjeu duglausir.

Skórinn kreppir víða að. Einn merkur maður úr bæjarstjórn Reykjavíkur hefir tjáð mjer, að bærinn hafi nú á nokkrum árum greitt um 100 þús. kr. til slæpingja — til þess að sjá fyrir börnum þeirra o. þvíl. En það er ekki hægt að þröngva þessum mönnum til að vinna, nema hægt sje að beita innilokun. Þegar þeir eiga um tvent að velja, vinnuna og frelsið annarsvegar og fangelsið hinsvegar, geri jeg ráð fyrir, að flestir muni kjósa frelsið.

Jeg fæ ekki sjeð, að nein áhætta fylgi því að samþykkja þessi ákvæði. Það er raunar engin vissa fyrir því, að skilyrði verði fyrir hendi til þess að fylgja þeim fram. En þá geta andstæðingar þeirra verið óhræddir um, að þau verða ekki til skaða. En jeg held einmitt, að það væri mjög gott, að þau kæmu þegar til framkvæmda, svo að nokkur reynsla yrði fengin, þegar kemur til þess að ný hegningarlög verði samin.

Það er ekki allskostar rjett, að hjer sje eingöngu farið eftir erlendum lögum. Hugsunin í frv. er fullkomlega íslensk og í samræmi við rjettlætismeðvitund almennings í landinu.