21.02.1928
Efri deild: 28. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2079 í B-deild Alþingistíðinda. (1087)

30. mál, tilbúinn áburður

Frsm. minni hl. (Jónas Kristjánsson):

Í nál. minni hl. á þskj. 228 hefi jeg tekið fram nokkuð af því, sem mjer og meiri hl. nefndarinnar ber á milli. Jeg hefi ekki getað sannfærst um það, að einkasala á þessari vörutegund sje eins nauðsynleg og hv. meiri hl. vill vera láta. Mjer virðist þvert á móti, að best myndi fara á því, að vara þessi verði seld í frjálsri samkeppni eins og verið hefir. Enda þótt frv. þetta sje aðeins heimild fyrir ríkisstjórnina, þá stefnir það þó í einkasöluáttina. Jeg vil því leyfa mjer að gera þá fyrirspurn til hæstv. forsrh., hvort beri að skoða þessa ríkiseinkasölu á áburði sem tilraun eða sem byrjun á ríkiseinkasölu yfirleitt á flestum vörutegundum. Það, sem þá fyrst og fremst mælir á móti þessu frv., er það, að engar sannanir eru fyrir því, að ríkið fái betri innkaup á þessari vörutegund en einstaklingar, og þess vegna er engin ástæða til þess að breyta um.

Jeg skal fúslega játa, að full ástæða sje til að ýta undir bændur með að auka ræktun landsins. En til þess tel jeg aðrar leiðir betri og bændum hagkvæmari en þá, sem frv. þetta gerir ráð fyrir. Er þess þá fyrst að gæta, að með frv. er ríkissjóði bundinn allþungur útgjaldabaggi, þar sem honum er ætlað að greiða öll flutningsgjöld undir áburðinn, ekki aðeins landa á milli, heldur og líka á milli einstakra hafna hjer við land. Til þess nú að gefa hv. deildarmönnum ofurlitla hugmynd um, hve miklu þessi útgjaldaauki muni nema fyrir ríkissjóð, vil jeg geta þess, að árið 1926 mun hafa flutst inn ca. 1140 tonn af tilbúnum áburði. Flutningsgjald undir hvert tonn hingað til lands var 25 kr. danskar, eða um 30 kr. íslenskar. Við þetta bætist svo flutningsgjald með flóabátum kringum land. Það er því sýnilegt, að þetta getur orðið allveruleg gjaldabyrði fyrir ríkissjóðinn. Þegar maður nú athugar, hvaða hjeruð það eru, sem mest nota þennan tilbúna áburð, þá kemur það fljótlega í ljós, að það er Reykjavík og nágrenni hennar. Þeir fá því mestar ívilnanirnar, sem hægasta hafa aðstöðuna til þess að ná í áburðinn. En það finst mjer ekki rjett, samanborið við menn t. d. austur í Rangárvallasýslu eða austur á Fljótsdalshjeraði. Og þegar þess er líka ennfremur gætt, að einmitt Reykvíkingar og nærsveitamenn hjer hafa allra manna bestan markað fyrir afurðir þær, sem þeir framleiða, þá virðist það koma ennþá ójafnara niður.

Jeg veit ekki alveg með vissu, hve mikið af þeim áburði, sem flutt er hingað til landsins, er notað í Reykjavík og hjer í grend, en það mun ekki of í lagt, þó gert sje ráð fyrir, að það sje langt yfir helming; sumir segja alt að 5/6 hlutum. Og það, sem notað er úti um land, er mest notað í kaupstöðunum og í grend við þá, einmitt þar sem hægt er að nota daglega sölu búsafurða til kaupstaðanna. Þessir staðir geta því keypt áburðinn, þó að engar ívilnanir sjeu gerðar. Það er því alt öðru máli að gegna með íbúa þessara hjeraða en bændur alment úti um sveitir landsins. Hagkvæmasta og besta ráðið til þess að koma bændum að liði í þessum málum hygg jeg vera það, að hagnýta sjer sem best hinn heimafengna áburð. Búfróðum mönnum telst svo til, að hjer fari árlega forgörðum mikið af heimafengnum áburði, sem nema myndi, ef til peningaverðs væri reiknað, fleiri hundruðum þúsunda króna á öllu landinu. Þannig er kunnugt, að miklu er brent af sauðataði, sem er einhver besti búpeningsáburðurinn. Að brenna því er því sama og að brenna töðunni. Þetta eru menn þó farnir að sjá í seinni tíð, og þeir, sem næstir búa kauptúnunum, eru farnir að kaupa kol til eldiviðar, til þess að geta notað sauðataðið til aukinnar ræktunar. Jeg hefi átt tal um frv. þetta, sem hjer liggur fyrir, við ýmsa bændur, og telja þeir flestir, að með því sje aðallega stefnt að því að hjálpa þeim, sem besta hafi aðstöðuna; hinum síður.

Það mun nú flestum ljóst, að ein aðalorsök þess, að fólkið flýr úr sveitunum til kaupstaðanna, er myrkrið og kuldinn. Það leitar úr hinum köldu híbýlum sveitanna til hinna bjartari og hlýrri bústaða kaupstaðanna, alveg eins og rjúpan, sem leitar til bygðanna eftir snöpum, þegar mjög sverfur að til fjallanna. Mjer finst því alveg farið skakka leið í frv. þessu, þar sem ekkert er gert fyrir þá, sem lengst búa uppi til sveitanna og eiga því erfiðast með alla aðdrætti, og svo er verið að hlaða undir þá, sem besta hafa aðstöðuna.

Þá kem jeg að þeim agnúa frv., að ekki má selja vöru þessa nema til samvinnufjelaga og verslunarfjelaga bænda. Hvers vegna mega kaupmenn ekki versla með tilbúinn áburð eins og kaupfjelög? Það vita allir, að ennþá versla margir bændur eingöngu við kaupmenn; og hvers vegna mega þeir ekki versla þar, sem þeir hafa lengi haft viðskifti og farnast vel? Jeg sje ekkert rjettlæti í þessu.

Það er sagt í 3. gr. frv., að heimilt sje að leggja á áburðinn alt að 5%. Jeg sje ekki af frv., hvort það er ríkið eða kaupfjelögin, sem eiga að leggja þetta á áburðinn. En mjer þykir sennilegast, að það sje ríkið, sem eigi að taka á móti þessum 5% til þess að mæta einhverju af sínum kostnaði við að útvega vöruna, en kaupfjelögin fái lítið eða ekkert.

Jeg hefi ekki getað látið vera að telja ýmislegt frv. þessu til foráttu og tel, að það, sem jeg hefi þegar tekið fram, hafi við talsverð rök að styðjast. Jeg álít, að það sje ekki nægilegt, sem mælir með því, að þetta frv. verði að lögum. Legg jeg því til, að það verði felt. Jeg býst ekki við, að það beri nokkurn árangur að bera fram brtt. um þetta frv. hjer í þessari hv. deild, og læt það því ógert.