21.02.1928
Efri deild: 28. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2091 í B-deild Alþingistíðinda. (1090)

30. mál, tilbúinn áburður

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinason):

Háttv. frsm. minni hl. vjek að því, að frv. væri heimild fyrir stj., en ekki skipun. Þetta er rjett. En eins og tekið er fram í nál. meiri hl., ætlumst við til, að heimildin verði notuð af hæstv. stj. (Forsrh. TrÞ: Það þarf ekki að efa, að svo verður gert). Mjer þykir vænt um að heyra það. Og jeg vildi bara taka þetta fram út af því, sem hv. frsm. minni hl. sagði. Jeg held, að það sje einhver misskilningur hjá hv. frsm. minni hl., að ríkið mundi ekki fá eins góð innkaup sem einstakir menn. Reglan undanfarið hefir sýnt annað. Jeg veit ekki betur en að landsverslunin stæði fullkomlega á sporði við einstaka menn, og fengi jafnvel betri innkaup. Auk þess stendur hjer sjerstaklega á. Áburðarverslunin er í höndum fárra fjelaga og það er ástæða til að ætla, að ríkisstj. komist í milliliðalaust samband við það þýska fjelag, sem mesta áburðarverslunina hefir. Og af pólitískum ástæðum mundi varla þykja við eiga — þar sem við erum fullvalda ríki —, að áburðurinn væri seldur íslenska ríkinu gegnum firma í öðru landi. Hv. frsm. minni hl. mintist á kostnaðinn, sem af þessu mundi leiða fyrir ríkið. Nú eru flutt inn hjer um bil 1000 tonn af áburði á ári og mætti gera ráð fyrir 25 kr. kostnaði af tonni. Það eru ekki mikil útgjöld, fyrir ríkið, og jeg þori að segja, að það væri betra, að upphæðin tvöfaldaðist, og jafnvel þrefaldaðist, — það sýndi þó altaf, að ræktunin væri að aukast, en að því er verið að vinna.

Hv. frsm. minni hl. benti á, hvort ekki væri rjettara að ljetta undir með þeim bændum, sem byggju fjarri hafnarstöðum, með flutninga. Jeg get upplýst það, að þetta var rætt í nefndinni. En ef farið verður inn á þessa braut, kemur margt og mikið til álita. Það er t. d. ekki hægt að miða við km.; vegir eru misjafnir og sömuleiðis flutningskostnaðurinn. Enda áleit meiri hl. nefndarinnar, að þetta væri alls ekki kleift. Hv. frsm. minni hl. sagði, að ákvæði frv. kæmu að mestum notum fyrir Reykjavík og umhverfi hennar og að Reykvíkingar mundu njóta ívilnananna í ríkustum mæli. Jeg sje ekkert á móti því, að þeir njóti ívilnana, sem vilja rækta. Jeg veit ekki betur en að aukin ræktun hjer í Reykjavík hafi einnig eflt ræktunina víðsvegar um land, og að aukin notkun tilbúins áburðar hjer hafi ýtt undir áburðarnotkunina annarsstaðar.

Hæstv. forsrh. upplýsti það, að 5% álagningin væri handa ríkissjóði upp í kostnaðinn, en ekki handa fjelaginu. Var gott að heyra það.

Hv. frsm. minni hl. vjek að því, að menn hjeldust ekki við í sveitunum vegna myrkurs og kulda. Jeg held, að þetta sje rjett hjá hv. þm., en þá er ekki annað að gera en auka birtuna og hlýindin, og það verður aðeins gert með aukinni ræktun og bættum efnahag, og að því er miðað í frv., því að það er enginn vafi, að tilbúinn áburður eykur ræktunina. Og það er mitt álit, að auka beri þægindin og bæta efnahaginn á þennan hátt. Hitt hefir ekki mikla þýðingu, þó að farið verði að leggja fram fje úr ríkissjóði, segjum 1–2 kr. af hverri smálest af kolum, sem ívilnun til þeirra, er kol kaupa í sveitunum.