21.02.1928
Efri deild: 28. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2093 í B-deild Alþingistíðinda. (1091)

30. mál, tilbúinn áburður

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Hv. frsm. minni hl. sagði það í upphafi ræðu sinnar, að það væri óvíst, hvort borgaði sig að nota tilbúinn áburð. Um þetta mætti halda langa ræðu, en jeg ætla að láta mjer nægja að minna á, að það, sem verst borgar sig fyrir bændur, er að rækta ekki. Það, sem gerir búskapinn svo óarðvænlegan, er hið gamla búskaparlag. Bændurnir kaupa rándýrt fólk og láta það svo mestmegnis vinna á engjum, þar sem seintekinn er heyskapur, þar sem heyið er verst og erfiðast um alla flutninga. Það þarf að losa bændurna við þetta drepandi búskaparlag og kenna þeim að rækta.

Hv. frsm. minni hl. mintist á ýms óskyld mál þessu í ræðu sinni. Meðal annars kom hann inn á það, að stj. veitti nú minna fje til vegalagninga en áður hefði verið. Þetta er rjett. Stj. ætlar sjer ekki að leggja fram meira fje til hinna ýmsu framkvæmda en til er. Og svo var skilið við skattalöggjöfina á síðasta þingi, að við höfðum aðeins takmarkaða. upphæð til verklegra framkvæmda. En við viljum ekki tekjuhalla og höldum okkur við þá reglu að takmarka framkvæmdirnar á meðan ekki fæst meira fje í ríkissjóðinn. Það er ekki um meiningamun að ræða milli mín og hv. frsm. minni hl.; jeg veit ósköp vel, að vegirnir eru nauðsynlegir. Það er bara þetta, sem skilur, að jeg vil ekki safna skuldum.

Hv. frsm. sagði, að það mundi draga úr mönnum, ef þeir hefðu ekki fje til að greiða áburðinn með. Það er nú svo, að það dragi úr mönnum að geta ekki borgað út í hönd. En jeg er ófáanlegur til að víkja frá þessu til að gera vöruna útgengilegri. Hjer má ekki vera um neina skuldaverslun að ræða.

Þá kom hv. frsm. minni hl. að atriði, sem er skylt að taka fult tillit til, ef það er satt; og þar ætti hann gerst um að vita, sem er sjálfur í stjórn kaupfjelags. Þetta atriði er það, að kaupfjelög selji vörur sínar með misjöfnu verði. En það er algeng regla, bæði hjá kaupmönnum og kaupfjelögum, að selja ódýrar það, sem borgað er út í hönd, heldur en það, sem fengið er að láni. En ef svo er litið á, að kaupfjelögin noti aðstöðu sína til að hlynna að sínum mönnum, skal jeg fallast á, að ákvæði sje sett í frv. um, að fjelögin sjeu skyldug að bjóða öllum bændum áburðinn til kaups með sömu kjörum, ef borgað er út í hönd. Hitt er ekki hægt að skipa, hvort heldur er búnaðarfjelögum eða kaupfjelögum, að lána hverjum, sem hafa vill. Fjelögin verða sjálf að ákveða, hvort þau þora að lána þessum og þessum manni eða ekki.

Í sambandi við þetta talaði hv. frsm. minni hl. um það, að heilbrigð samkepni mundi myndast, ef bæði kaupfjelög og kaupmenn hefðu áburðinn til sölu. En um hvaða samkepni getur hjer verið að ræða? Það verður opinbert mál, við hvaða verði fjelögin fá áburðinn. Áburðurinn á að seljast með sama verði á öllum höfnum landsins. (JKr: Mega ekki kaupfjelögin leggja á?). Jú, vitanlega verða þau að leggja á fyrir kostnaði. En jeg vil benda á það, að framleiðendurnir hafa sjálfir ráðin um álagninguna í kaupfjelögunum.

Þá sagði hv. frsm. minni hl., að búnaðarfjelögin væru ekki verslunarfær. Jeg vil minna á, að þau hafa einmitt verslað með svona vörur: vjelar, áburð o. s. frv. Og þau hafa jafnvel komið á starfsemi í þessum efnum, haldið úti vinnuflokkum o. s. frv. En það er annað, þótt búnaðarfjelög útvegi sínum fjelögum það, sem þeir sjerstaklega þurfa til atvinnurekstrar, eða að reka almenna verslun.

Loks sagði hv. frsm. minni hl., að hann væri hræddur um, að það yrði til að ýta undir flutninginn til kaupstaðanna, ef þetta frv. yrði samþ. Slíka spádóma sem þessa er auðvitað ekki hægt að rökræða. En jeg vil benda á það, að einmitt fram til fjalla er dýrmætastur bagginn af ræktaða heyinu — töðubagginn —, og ef til vill reynist það mestur arðurinn við tilbúna áburðinn, ef hann ýtir undir ræktun þeirra bygða, sem fjærstar eru höfnunum. Og undir öllum kringumstæðum er jeg viss um, að aukin ræktun sveitanna verður ekki til þess að auka fólksflutning til kaupstaðanna.