21.02.1928
Efri deild: 28. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2096 í B-deild Alþingistíðinda. (1092)

30. mál, tilbúinn áburður

Ingvar Pálmason:

Það, sem mjer virtist aðallega koma fram í ræðu hv. frsm. minni hl., er ótrú á útlendum áburði. Mjer fanst eins og hann væri sannfærður um, að aukin notkun útlends áburðar mundi ekki flýta fyrir ræktun landsins, og því get jeg skilið, hvað hann tekur þessu frv. tómlega. Annars fanst mjer kenna bæði ókunnugleika og misskilnings í ræðu hans. Með því verði, sem nú er, er útlendur áburður í raun og veru — eftir notagildi — ekki til muna dýrari en innlendur. Og ef notendur fá hann ennþá ódýrari en nú er, mun hann reynast mikið ódýrari en innlendur áburður. Jeg get sagt það af eigin reynslu, að tilbúinn áburður er í mörgum tilfellum ódýrari í notkun en sjávaráburður og fiskúrgangur, sem verið er að halda að okkur bændunum með fullum rjetti að nota til hins ítrasta, og jeg held, að svo verði einnig fram til sveitanna, sjerstaklega þegar um er að ræða notkun sauðataðs til áburðar. Mín skoðun er sú, að bændum til lands á mörgum stöðum sje tjón að því að þurfa að nota sauðatað til áburðar og geta ekki notað það til eldiviðar.

Hv. frsm. minni hl. sagði, að kuldinn ræki menn úr sveitunum. Þetta er líklega rjett. Jeg efast ekki um, að hv. þm. sje á þessu sviði á rjettum vettvangi og viti, hvað hann segir. En jeg er hræddur um, að það hafi lítið að segja, þó að kolin sjeu 1–2 kr. ódýrari, ef bændur á annað borð fara að ylja baðstofurnar með þeim. En ef bændur geta notað alt sauðatað sitt til eldiviðar, þá gæti jeg skilið, að færi að hlýna. Og með það fyrir augum vil jeg leggja áherslu á, að bændum lærist sem fyrst að nota útlendan áburð.

Það er rjett að athuga lítillega flutningskostnað kola og tilbúins áburðar. Jeg held, að mjer sje óhætt að fullyrða, að 1½ smálest af sauðataði jafngildi einni smálest af kolum. Nú nægir 1½ smálest af taði sem áburður á eina dagsláttu af ræktuðu landi, eða jafngildir 1 tunnu af tilbúnum áburði. Það er því auðsýnt, að kolin standast ekki samanburð hvað flutningskostnað snertir. Jeg held því, að það sje skotið yfir markið, þegar hv. þm. er að blanda inn í umr. hækkun á kolatolli og bera það saman við flutningsgjald á áburðinum. Og ólíkt heilbrigðari grundvöllur virðist það vera, að auka ræktunina með útlendum áburði en með því að flytja inn tugi tonna af kolum. Jeg bendi á þetta af því, að hjer er verið að draga alveg óskylt mál inn í umræðurnar. Jeg vil endurtaka það, sem jeg sagði áðan, að bændum er nauðsyn að geta notað sauðataðið til eldiviðar og hafa alls ekki ráð á að nota það í áburð. Annars má tala um þetta mál frá mörgum hliðum. Mór til dæmis kostar mikla vinnu, svo að vafasamt er, hvort mótekja borgar sig, þó að mórinn sje góður. Og verði farið að nota mó að miklum mun meir en verið hefir, gengur hann brátt til þurðar. Aftur á móti er minni ástæða til að óttast, að svo fari um sauðataðið, svo lengi sem sauðfjárrækt er á annað borð stunduð á þessu landi.

Það er því hreinasta villukenning, að bændurnir eigi ekki að brenna taði. Það er sjálfsagt, að þeir geri það, og fjárhagslegur hagnaður að því, ef þeir eiga kost á áburðarefnum, sem bæði eru ódýrari og betri að notagildi.

Jeg sje ekki ástæðu til að fara inn á fleiri atriði. Hæstv. forsrh. og háttv. frsm. meiri hl. hafa tekið ómakið af mjer. En jeg vil enda með því að leggja áherslu á, að ræktun landsins byggist á notkun tilbúins áburðar. Auðvitað er sjálfsagt að spilla ekki innlendum áburði og nota hann sem best, en það verður að muna, að með honum einum gengur ræktunin of seint.