21.02.1928
Efri deild: 28. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2100 í B-deild Alþingistíðinda. (1094)

30. mál, tilbúinn áburður

Frsm. minni hl. (Jónas Kristjánsson):

Háttv. þm., sem hafa andmælt mjer, eru mjög á einu máli um eitt, og það er það, að útlendur áburður verði aldrei of dýru verði keyptur; hann sje sá langódýrasti og besti áburður, sem hægt er að fá. Hjer ber okkur á milli. Jeg legg áherslu á það, að notadrýgra sje að drýgja heimaáburðinn, hirða og notfæra hann sem best fyrst, í stað þess að fara að kaupa dýru verði erlendan áburð og láta afurðir búsins ganga til þessara kaupa. Þetta atriði var sameiginlegt í ræðum þeirra allra. Háttv. 5. landsk. gat þess, að hann væri glaður yfir því, að þessi heimild yrði nú væntanlega að lögum. Jeg get svo sem trúað því. Jeg býst sem sje við, að hann og hans samherjar sjeu glaðir yfir öllu, sem ber einhvern keim af einkasölu. Því að það er þó í áttina að vera í samræmi við „princip“ þeirra jafnaðarmannanna.

Hæstv. atvmrh. var og á sama máli og þeir hinir, að útlendur áburður væri sá langódýrasti áburður, sem um væri að gera. Því væri þessi einkasöluheimild og sjerstaklega þessi eftirgjöf á flutningskostnaði næsta mikils virði.

En úr því hann er svona ódýr og þó svo mikils virði, þá sje jeg ekki, hvaða ástæða er til þess að gefa eftir flutningsgjaldið. Sjerstaklega vil jeg benda á, að sú eftirgjöf, sem farmgjaldinu nemur, lendir ekki á rjettum stað. Það lægi þá nær að hjálpa þeim, sem búa langt uppi í sveit og eiga erfitt um alla aðdrætti, til þess að nálgast þennan bjargvætt, útlenda áburðinn, með ódýrum hætti. Þeirra er þörfin mest, því að öll aðstaða þeirra er svo miklum mun verri en hinna, sem við sjóinn búa og í grend við kauptúnin. Sannast hjer, að þeir segja mest af Ólafi konungi, sem hvorki hafa heyrt hann nje sjeð. Þeir, sem að þessu frv. standa, hafa ekki sjálfir reynt, hvað það er að búa langt uppi í sveit og búa við ljelega og seina afurðasölu. Áburðurinn er ekki kominn í hendur bænda, þótt kominn sje á hverja höfn.

Jeg játa fyllilega kosti útlends eða tilbúins áburðar og veit, að hann getur mjög víða komið að miklum notum. En munurinn er aðeins þessi, að jeg hygg, að hann verði stundum of dýru verði keyptur, þegar miðað er við afurðasöluna.

Hæstv. atvmrh. ætlar ekki að kaupa fyrir það fje, sem ekki er til, og kalla jeg það lofsverða reglu. En jeg spyr: Ætlar þá hæstv. forsrh. að láta flytja til landsins tilbúinn áburð fyrir það fje, sem ekki er til?

Það er líka með þessa vöru, að jeg tel nauðsynlegt, að jafnan sjeu nægar birgðir af henni fyrir hendi á þeim stað, þar sem varan á að seljast, um það leyti, sem hún er mest notuð. Jeg get vel hugsað mjer, að margur bóndinn veigri sjer við að gera pöntun fyrirfram, af því að borga skal áburðinn út í hönd. En svo gæti atvikast, að honum rættust peningavonir í millitíð, svo að honum væri kleift að kaupa. Ef birgðir væru fyrir hendi, en ekki alt bundið við pantanir í eitt skifti fyrir öll, yrði það efalaust til þess að áburðurinn yrði meira notaður.

Háttv. 2. þm. S.-M. fanst jeg hafa ótrú á útlendum áburði. Það er síður en svo. En jeg vil ekki kaupa það, sem jeg get fengið ókeypis heima hjá mjer. Það er til latneskt máltæki, sem kemst svo að orði, „að menn fari oft yfir sjóinn til þess að fá það, sem þeir geta fengið heima hjá sjer“. Og menn fara stundum yfir lækinn til þess að sækja vatn.

Það er látið í veðri vaka, að með þessu sje verið að vinna fyrir bændurna. Mjer dettur í hug sagan um tófuna, sem bauð storkinum heim til sín og þóttist ætla, að veita honum vel, en hann gat ekki notið þess, er fram var reitt, sökum þess, með hverjum hætti það var gert. Líkt á að fara að hjer. Áburðurinn er fluttur fyrir ekkert á hverja höfn og sagt við bændur: Berið ykkur nú eftir björginni! — Þeim, sem uppi í sveitunum búa, er mest þörfin að ljetta undir með flutninginn eftir að áburðurinn er kominn á land, því hann er þeim tilfinnanlegastur, en þetta er ekki gert með frv. Bændum flestum er því sama sem engin hjálp veitt.

Jeg veit ekki, hvort skoðun háttv. 2. þm. S.-M. á sauðataðinu kemur heim við kenningu búnaðarráðunautanna, því að hann ljet svo, að það væri einskis virði til áburðar. Mjer finst honum fara líkt og kerlingunni, sem ekki saknaði sólarinnar, því að það væri bjart hvort sem væri á daginn. Bændur hafa ónógan eldivið, og þótt þeir brendu sauðataðinu öllu, verða þeir að kaupa kol samt sem áður. Þó að þeir vildu nota mó eða svörð, þá er hann víða ekki til. — Jeg spurði hæstv. forseta okkar (GÓ) að því, hverju þeir brendu í hans hjeraði. Hann svaraði: Við brennum sauðataði og kolum. Mór er víða ekki til í mínu bygðarlagi.

Spurningin er því þessi: Svarar það kostnaði að brenna sauðataðinu og losna þannig við kolakaup að einhverju litlu leyti, en kaupa í þess stað útlendan áburð, sem flytja verður óravegu, við skulum segja eins og t. d. hjeðan úr Reykjavík og austur á Rangárvöllu? Það er náttúrlega afarmikið vandamál að svara þessu, svo ábyggilegt sje, og fer eftir staðháttum, hvernig lausnin verður. En það er hverjum einum holt að varast að kasta burt verðmætum heima fyrir og í þess stað að leggja fje í að kaupa annað útlent dýru verði. Jeg vil halda fast við þá skoðun, að óþarfi sje að verja fje úr ríkissjóði til þess að flytja áburð til landsins. Og ef um kostnað af hálfu hins opinbera er að ræða, þá á hann að stefna að því að styrkja þá, er verri hafa aðstöðuna.

Hv. 2. þm. N.-M. var á sama máli um það, að útlendur áburður væri ekki of dýr. En jeg hygg, að hann kynni að vera orðinn nokkuð dýr, kominn neðan af Reyðarfirði og upp í Jökulsárhlíð t. d., eða alla leið inn á Jökuldal. Háttv. þm. talaði um þörf á betra fóðri. Vitaskuld er taða betra fóður en misjafnt úthey. En jeg efast stórlega um, að hún sje hótinu betri, þótt hún sje sprottin upp af tilbúnum áburði. Taða getur líka velkst og orðið ljelegt, jafnvel óholt fóður.

Það er síður en svo, að jeg amist við jarðabótum. Þær þurfa einmitt að komast í það horf, að minni þörf sje fyrir margt heyvinnufólk en nú er og heyskapur fari sem mest fram á ræktuðu landi. Það er tvent ólíkt, að slá reitingssamar útengjar með orfi og ljá eða sljett tún með sláttuvjel.

Jeg finn ekki ástæðu til að fjölyrða frekar að þessu sinni. Má þó vera, að jeg hafi gleymt einhverju, sem þurft hefði að svara. En þeir, sem andmælt hafa mínum skoðunum, hafa ekki fært til nægar sannanir, að jeg gæti sannfærst um, að útlendur áburður sje í öllum tilfellum ódýrari en heimafenginn. Og ef svo er, sem þeir halda fram, þá tel jeg hreinan óþarfa að verja fje úr ríkissjóði til þess að gera hann 1/10 ódýrari, og enn, að kostnaðarþátttaka hins opinbera kemur þar ekki niður á rjettum stað.