25.02.1928
Efri deild: 32. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2116 í B-deild Alþingistíðinda. (1101)

30. mál, tilbúinn áburður

Erlingur Friðjónsson:

Jeg vil segja hjer nokkur orð, af því að öðruvísi horfir gagnvart mjer en sumum öðrum hv. þm. um sölu áburðarins innanlands. Í frv. er gert ráð fyrir, að samvinnufjelög bænda hafi söluna með höndum, en ekki kaupfjelög verkamanna, en eins og kunnugt er, veiti jeg einu slíku kaupfjelagi forstöðu. Gagnvart þessu atriði ætlaði jeg að gefa þá yfirlýsingu, að jeg gæti vel fallist á að fella burtu heimild kaupfjelaganna til áburðarsölu. Jeg álít, að áburðarsalan ætti að vera í höndum deilda Búnaðarfjel. og hreppsfjelaganna. Ætti að mínum dómi ekki að ganga lengra í að dreifa sölunni en þörf krefur. — Þarna sýnist engin ástæða til að láta kaupmenn eða kaupfjelög hafa hönd í bagga. Það mun vera leitun á vöru, sem eins ljett er að hafa sölu á eins og tilbúnum áburði. Mest af honum er flutt inn að vorinu, en aðeins lítið eitt á haustin. Útbýtingin er því bæði einföld og ljett. Það mundi og lyfta undir samheldnina og samtökin í deildum B. Í. um ræktun landsins, ef þær hefðu þetta með höndum. — Að þessu leyti get jeg fallist á till. hv. 3. landsk., að jeg vil, að kaupmenn og kaupfjelög hafi nákvæmlega sömu aðstöðu gagnvart áburðarversluninni.