25.02.1928
Efri deild: 32. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2117 í B-deild Alþingistíðinda. (1102)

30. mál, tilbúinn áburður

Jón Þorláksson:

Jeg mun fyrst svara hv. 5. landsk. og hv. þm. Ak. — Hv. 5. landsk. ljet sem sjer þætti mjög vænt um yfirlýsingu mína um það, að jeg vildi hafa heiðarlega verslun. Hann hefir nú haft þá ánægju áður að heyra þetta, því að jeg gaf sömu yfirlýsinguna í hv. Nd. á þingi 1926, einmitt út af þessu sama máli. Verslunin á að vera þannig frjáls, að samkepni komist alstaðar að. Jeg og skoðanabræður mínir álítum samkepnina þann gangstilli á verðlaginu, sem seinast muni svíkja.

Hv. þm. spurðist fyrir um álit mitt á olíuhringunum í Ameríku. Jeg veit mjög lítið um þessa hringa og get því ekki haft fullkomlega rökstudda skoðun um þá. Þó veit jeg það um hinn fyrsta þeirra, að hann leysti af hendi þau þrekvirki um flutning steinolíu, að eftir það er fyrst hægt að segja, að hún verði útbreidd og almenningsvara. Jeg skil ekki, hvað hv. 5. landsk., sem alt þykist vilja skipulagsbinda og helst vill, að ekki fari nema einn aðili með verslunina í hverju landi, getur haft á móti þessu. Annars þekki jeg ekkert til þessa, svo sem jeg tók fram, nema jeg hefi kynt mjer nokkuð þetta „tekniska“ atriði, þegar fyrsti stóri olíuhringurinn leiddi olíuna í pípum langt vestan úr landi niður á austurströnd Ameríku.

Um sementsverslunina get jeg sagt hv. þm. það, að hún er svo frjáls, að hann getur farið til sömu verksmiðjunnar og verslun sú, sem jeg er meðeigandi í, eða til verksmiðjanna við hlið hennar, sem mest selja hingað, og fengið sementið við nákvæmlega sama verði. Í þessum iðnaði er nefnilega hringur um það, að enginn megi hafa fasta umboðsmenn eða gefa nein umboðslaun hingað til landsins. Hitt er ekki nema eðlilegt, að svipað verð sje hjá öllum, sem hjer versla með sement, og að þeir reyni helst að spara sem mest flutningskostnaðinn, með því að flytja sem mest af vörunni með stórum skipum.

Það er einmitt þekking mín á svona iðnhringum, sem gerir það að verkum, að jeg hefi enga trú á, að takast megi að fá áburðinn við lægra verði, þótt landið taki verslunina í sínar hendur. Það yrði svo óendanlega lítið, sem landið þyrfti að nota, varla meira en eins og einn hreppur í Danmörku. Og má nærri geta, hvort áburðarverksmiðjurnar færu að gefa svo smáum viðskiftavini sjerstök vildarkjör.

Jeg staðhæfði, að einkasala á áburði yrði aðeins til að bæta við nýjum millilið, en hæstv. ráðh. mótmælti því. Jeg hefi það frá því samvinnufjelagi bænda, sem mest flytur inn af áburði, að milliliðir sjeu ekki til um þýska köfnunarefnisáburðinn, sem núna er mest notaður hjer. Og þá er ljóst, að a. m. k. þar yrði einkasalan nýr milliliður.

Mjer þótti leitt, að hæstv. ráðherra skyldi ekki svara þeirri fyrirspurn, hvort heimildin til að borga undir áburðinn yrði eingöngu notuð um flutninga með skipum Eimskipafjelagsins og ríkissjóðs. Vísaði hæstv. ráðh. um það til hv. frsm. meiri hl. En hann fer nú heim af þingi bráðlega, og þá verður valdið eftir hjá hæstv. atvmrh. Stendur honum því nærri að segja til um þetta. Jeg játa, að ákvæðið er ekki eins varhugavert, ef það verður aðeins látið ná til íslenskra skipa.

Þá vil jeg minnast á nokkur orð, sem töluð voru um milliliðastjettina af þeim hæstv. forsrh., hv. þm. Ak. og hv. 5. landsk. „Við erum ekki að gera þetta fyrir milliliðastjettina eða kaupmennina“, segja þeir. En enginn þeirra hefir gert neitt til að andmæla því, að þegar vara er höfð til sölu hjá kaupmanni, þá er það gert til þess, að viðskiftamennirnir geti náð í hana. Ef á að varna þeim, sem versla við kaupmenn, að ná í áburðinn, verður frv., áreiðanlega meira til að draga úr notkun hans en auka hana. Það er ekki nóg að segja mönnum, að þeir geti farið til hreppsfjelagsins eða búnaðarfjelagsdeildarinnar og sagt þeim að panta fyrir sig. Meiri hl. hreppsbúa getur verið í samvinnufjelagi og fengið áburðinn þar, og má vel vera, að hann hafi rjettmætar ástæður á móti því, að hreppsfjelagið fari að fást við áburðarverslun.

Hæstv. ráðh. vændi mig um það, að eitthvað annað lægi á bak við mína afstöðu en jeg ljeti uppi. En jeg vil þá segja, að þegar á að fara að gera erfiðara að fá þessa nauðsynjavöru en alla aðra, þá liggur þar eitthvað á bak við. Jeg tók það fram í byrjun, að það er ekki vegna kaupmannanna, að jeg vil, að þeir fái að versla með þessa vörutegund. Álagningin á henni verður svo lítil, að enginn beinn hagur verður af því að hafa hana til sölu. En það er hagur fyrir viðskiftamenn kaupmannanna að geta fengið áburðinn hjá þeim.

Jeg dreg af þessu þá ályktun, að með frv. sje ekki verið að greiða á eðlilegan hátt fyrir notkun tilbúins áburðar í landinu, heldur er verið að neyða menn til að standa betur saman um tiltekinn verslunarhring, sem á að geta boðið skiftavinum sínum þessa vöru.