25.02.1928
Efri deild: 32. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2120 í B-deild Alþingistíðinda. (1103)

30. mál, tilbúinn áburður

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg ætla að grípa þar fyrst niður, sem hv. 3. landsk. endaði. Hann sagði, að verið væri að hlynna að samvinnufjelögunum með því að taka af kaupmönnunum þá verslun, sem þeir hafa, að eigin sögn hv. þm., óhag af að fara með. Jeg vænti, að allir hv. þdm. sjái, hve illyrmislega þessar röksemdir hv. þm. stangast. (JÞ: Áburðurinn á að draga skiftavinina til kaupfjelaganna). Það eru líka margvíslegar aðrar vörur, sem aðeins fást á einum stað. Það er t. d. svo um jarðræktarverkfæri. Samband ísl. Samvinnufjelaga hefir því nær alla verkfæraverslunina úti um land. Enginn hefir kvartað undan þessu. Úti um land er það svo, að því nær enginn skiftir eingöngu við kaupmann eða eingöngu við kaupfjelag, þar sem hvorttveggja er.

Jeg bauð hv. 3. landsk. við 2. umr. að fylgja brtt. frá honum um þá millileið, að Samvinnufjelögin skyldu skylduð til að selja öllum áburðinn við sama verði. Hv. þm. hefir ekki flutt neina brtt. í þá átt, og vil jeg segja, að þetta sýnir, að þarna liggur eitthvað annað á bak við. Jeg er ekkí í vafa um, hvað það er.

Jeg var því miður ekki inni í deildinni, meðan hv. 3. landsk. flutti fyrri hluta ræðu sinnar. Þegar jeg kom inn, var hann að tala um það, að ekki væri annað en hugarburður, að einkasalan gæti átt kost á betra verði á áburðinum en innflytjendur nú. Þær ráðstafanir, sem hjer er farið fram á til að auka notkun áburðarins, hljóta að gera það að verkum, að seljendurnir verði liðlegri í viðskiftum. Fjelag það í Suður-Svíþjóð, sem aðallega hefir haft með höndum útsöluna um Norðurlönd, hefir gert mjög mikið til að auka útbreiðslu áburðarins. T. d. hefir það gefið út margar stórar bækur um notkun tilbúins áburðar og kostað til ærnu fje. Svo ætti enginn að þurfa að efast um, að það er mikill munur á að versla við ríkið, sem alt borgar út í hönd, eða einstaklinga, sem vafi er á, hve góðir borgunarmenn eru, eða a. m. k. verða að fá gjaldfrest. Það er auðskilið mál, að seljandi verður að leggja á vöruna fyrir slíkum vanhöldum, ef hann verslar við einstaklinga.