25.02.1928
Efri deild: 32. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2123 í B-deild Alþingistíðinda. (1105)

30. mál, tilbúinn áburður

Erlingur Friðjónsson:

Hv. 3. landsk. hjelt fram, að það væri gert fyrir notendurna, að kaupmenn fengju einnig leyfi til að selja áburðinn. Jeg hefi hugsað mjer, að það væri óhjákvæmilegt, að notendur gerðu fyrirfram pantanir í áburðinn, og eftir þeim væri síðan farið um útvegun hans. En mjer skilst, að hv. 3. landsk. álíti, að áburðurinn eigi að vera til sölu alt árið og á boðstólum eins og hver önnur verslunarvara, svo að notendur gætu altaf fengið hana. Jeg er sannfærður um, að hjer verður ekki sá háttur upp tekinn. Kaupmenn munu fljótlega sjá, að retta borgar sig ekki.

Þegar notendur eiga greiðan aðgang að samtökum innan hrepps- og bæjarfjelaga og í búnaðarfjelögunum með útvegun á áburðinum, þá fæ jeg ekki annað sjeð en ákvæði frv. þar að lútandi sjeu nægilega rúm. Að halda því fram, að þetta fyrirkomulag dragi úr notkuninni, eru draumórar einir. Frá þessu atriði virðist svo vel gengið í frv., að hverjum einum ætti að vera í lófa lagið að geta fyrirhafnarlítið náð í áburð eftir þörfum. Nú er því svo varið með áburðinn, að hann er nær eingöngu notaður á vorin, og máske lítið eitt á haustin. En þar sem verslunartíminn er svo takmarkaður, er lítt mögulegt fyrir verslanir að versla með hann sem hverja aðra vöru, er selst árið yfir. Enda hefir áburðarverslunin verið rekin að undanförnu á sjerstakan hátt og í samræmi við það, sem gert er ráð fyrir í frv. þessu. Bændur hafa slegið sjer saman og gert pöntun hjá umboðsmanni þess firma, er haft hefir áburðarverslunina með höndum hingað til. Það verslunarfirma hefir ekki haft áburðinn fyrirliggjandi til sölu það jeg til veit. Enda mjög óeðlilegt, að svo sje, eftir því sem bent hefir verið á hjer að framan.