25.02.1928
Efri deild: 32. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2124 í B-deild Alþingistíðinda. (1106)

30. mál, tilbúinn áburður

Halldór Steinsson:

Það er þegar búið að ræða þetta mál allmikið, og má því segja, að það sje að bera í bakkafullan lækinn að lengja umr. um það. En þar sem mjer virðist umr. mest hafa hnigið að fyrirkomulagi sölunnar, en síður að aðalkjarna sjálfs frv., þá vildi jeg gjarnan leyfa mjer að lýsa aðstöðu minni til þessa frv. frá almennu sjónarmiði.

Við 2. umr. málsins komu margar nýstárlegar kenningar, en fáránlegust held jeg þó, að sú kenning hafi verið, að kenna þyrfti bændum að brenna sauðataði. Það var, að jeg hygg, hv. 2. þm. S.-M. (IP), sem fram kom með þá kenningu. Jeg hefi nú hvergi sjeð eða heyrt þessari fjarstæðu haldið fram fyrri og vonast til þess að heyra það ekki oftar, og síst á hinu háa Alþingi.

Við 1. umr. þessa frv. var nokkuð rætt um það, hvort notkun tilbúins áburðar mundi borga sig. — Jeg fyrir mitt leyti tel engan vafa á því, að í kringum kauptún og kaupstaði, þar sem hægt er að ná í daglegan markað fyrir afurðirnar og hátt verð er á þeim, þá muni það borga sig vel að nota tilbúinn áburð, — svo vel, að ekki ætti að þurfa að styrkja menn af ríkinu til að nota hann. — Nú er tilgangur þessa frv., eins og kom fram hjá hv. frsm., sá, að stuðla að aukinni ræktun. Sá tilgangur er að vísu góður, en jeg er hræddur um, að lög þau, sem frv. þetta er vísir til, komi ekki að tilætluðum notum. Þó notkun tilbúins áburðar borgi sig vel þar, sem nærlægur og góður markaður er fyrir afurðirnar, þá er alt öðru máli að gegna um afskekt hjeruð, er liggja fjarri höfnum. Þó því þessi tilslökun á verði áburðarins fáist, þá er jeg hræddur um, að það komi ekki að almennum notum uppi til sveita. Samgöngurnar víða eru svo bágbornar enn, að svo má segja, að hver hestburður kosti of fjár í flutningi. Aðalhagnaðurinn fyrir bændur hefði því verið það, sem talað var um við 2. umr., að styrkja bændur til að flytja áburðinn upp til sveitanna. Við hafnir eru nú nokkurnveginn góðar og greiðar samgöngur og síst þörf að greiða flutningsgjöld þangað. En til efstu dala er svo dýrt og erfitt að koma áburðinum, að það hefði þurft að styrkja. Og þar sem engin brtt. liggur fyrir til að ráða bót á því, þá treysti jeg mjer ekki til að greiða atkv. með frv.