25.02.1928
Efri deild: 32. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2125 í B-deild Alþingistíðinda. (1107)

30. mál, tilbúinn áburður

Páll Hermannsson:

Jeg gat þess við 2. umr. þessa frv., að jeg vildi gjarnan gera á því nokkrar breytingar, sem jeg hugði, að gætu orðið til bóta, og að jeg mundi bera þær fram í samráði við þá menn, er málið hefðu sjerstaklega til meðferðar. En þann dag, sem þetta hefði þurft að gerast, var mjer það ekki hægt af sjerstökum ástæðum, og fórst því fyrir. Jeg reyndi að komast í samband við nefndina um þessi atriði, og held jeg, að að minsta kosti meiri hl. nefndarinnar hafi litið svo á, að rjett væri að taka þau til greina. En af sjerstökum ástæðum var þó horfið frá að gera brtt. við frv. nú. Þessar ástæður voru þær, að nefndinni var kunnugt um það, að svipaðar en víðtækari brtt. myndu koma fram við frv. í Nd., og að þar yrði því bætt úr þeim göllum, er mjer þykir vera á frv. nú. Jeg taldi því ekki saka, þótt þessar umbætur biðu, en mun greiða atkv. með frv. nú, í þeirri von, að bætt verði úr þessu í hv. Nd.

Hjer hefir verið rætt talsvert um eitt atriði þessa frv. En samkv. áður sögðu, þá get jeg leitt hjá mjer að tala um það, enda er það ekki stórt atriði og jeg býst við, að með frv. verði sjeð fyrir því, að allir, sem vilja og þurfa, hafa sæmilega greiðan aðgang að því að geta náð í tilbúinn áburð. Jeg geri ráð fyrir umbótum í þá átt í Nd. og mun því verða á móti till. hv. 3. landsk.

Um frv. þetta eru þegar orðnar langar umr., og mun jeg því ekki lengja þær meira.