02.03.1928
Neðri deild: 37. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 638 í B-deild Alþingistíðinda. (111)

1. mál, fjárlög 1929

Hjeðinn Valdimarsson:

Mig langar til að beina til hv. fjvn. fyrirspurn út af einum útgjaldalið fjárl. Í 8. gr. er borðfje konungs ákveðið 60 þús. kr.

Jeg heyri, að hingað til hafi þetta borðfje verið greitt, ekki með 60000 íslenskum krónum; heldur með 60000 dönskum krónum. Ef svo er, þá vil jeg spyrja, með hvaða heimild þetta hafi verið gert og hvers vegna upphæðin hafi ekki verið greidd í íslenskum krónum. Í sambandslögunum er ákveðið, að hvort ríki ákveði greiðslur sínar til konungs og konungsættar. Þetta hefir Alþingi síðan gert með lögum nr. 18 1919, um konungsmötu. Þar segir svo: „Til konungs og konungsættar skal greiða af ríkisfje kr. 60000 á ári“. Þar sem hjer er um íslensk lög að ræða, er auðvitað gert ráð fyrir, að einnig sje um íslenskar fjárhæðir að ræða. Ef það er rjett, sem fram kemur í landsreikningnum 1926, að fjárhæð þessi hafi verið greidd í dönskum krónum, þá hlýtur það að vera gert í algerðu heimildarleysi, en mismunurinn á þessum fjárhæðum nemur um 14000 ísl. kr.

Þá er önnur fyrirspurn út af 10. gr. III. í fjárlagafrv. Eru það ýmsar veitingar til utanríkismála, og nema þeir liðir samt. 84000 kr. Aðalliðirnir eru laun sendiherra í Kaupmannahöfn, kostnaður við sambandslaganefnd o. fl., og er þetta alt talið í íslenskum krónum. Af þessari upphæð eru laun sendiherra föst upphæð, 20000 kr. Mjer hefir verið skýrt frá því, að þessar upphæðir hafi einnig verið greiddar í dönskum krónum, og vildi jeg því leyfa mjer að bera fram þá fyrirspurn, hvort ætlunin sje að greiða þetta enn í dönskum krónum eða ekki, og eins, með hvaða heimild fráfarin stjórn hefir gert það. Til hvers eru fjárlög, ef hægt er að greiða ákveðnar fjárveitingar með alt öðrum upphæðum en löggjafarvaldið ákveður?