25.02.1928
Efri deild: 32. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2132 í B-deild Alþingistíðinda. (1113)

30. mál, tilbúinn áburður

Halldór Steinsson:

Hv. 2. þm. S.-M. virtist vera mjög hróðugur og ánægður með sjálfan sig yfir þessum merkilegu útreikningum sínum. Jeg ætla heldur ekki að eyðileggja þá ánægju, en vona hans vegna, að hún geti haldist sem lengst. Annars verð jeg að játa, að jeg skildi ekki útreikninga hans um hlutfallið milli kola og áburðar, og jeg er hræddur um, að það hafi enginn skilið, nema ef til vill hann sjálfur.

En út af ummælum hv. 2. þm. N.-M. vildi jeg skjóta því til forseta, hvort ekki væri rjett að taka málið út af dagskrá, til þess að hv. 2. þm. N.-M. og fleirum gefist kostur á að koma með brtt., því að það er hart að láta málið fara frá þessari deild í þeirri von, að þeir gallar, sem á því eru, verði leiðrjettir í Nd.