15.03.1928
Neðri deild: 48. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2136 í B-deild Alþingistíðinda. (1122)

30. mál, tilbúinn áburður

Frsm. (Lárus Helgason):

Það þarf ekki langa framsögu fyrir þessu frv.

Fyrst og fremst ákveður frv., að stj. sje heimilt að taka í sínar hendur einkasölu á tilbúnum áburði, til þess að koma í veg fyrir óþarfa álagningu af ónauðsynlegum milliliðum. Í öðru lagi er henni heimilað að greiða flutningsgjöldin að landinu og með ströndum fram af opinberu fje, svo landsmönnum verði gert mögulegra að nota áburðinn. Það hefir komið í ljós, að áburðurinn hefir verið lítið notaður til þessa, nema kringum aðalhafnirnar. Er þetta frv. því spor í áttina til að kenna mönnum að nota áburðinn og gera mönnum mögulegt að borga hann. Flutningskostnaðurinn hefir orðið svo dýr, að bændur hafa hikað við að nota hann, þótt það jafnvel víða kunni að hafa borgað sig. Nefndinni var það ljóst, að það mundi verða mjög erfitt, og jafnvel ómögulegt, að gera lögin svo úr garði, að allir landsmenn nytu jafnra hlunninda. Það kom til tals hjá nefndinni, að þeirra mundi verða jafnari not, ef flutningsgjöldin landa á milli væru ekki greidd úr ríkissjóði, en upphæðin notuð til þess að stytta landleiðina hjá þeim, sem erfiðast ættu með aðdrætti. En nefndin sá sjer ekki fært að fara þá leið, nema að litlu leyti, þar sem það yrði svo vafningasamt og erfitt í framkvæmdinni. En nefndin viðurkennir, að brýn nauðsyn beri til að ljetta undir með bændum í Árnes- og Rangárvallasýslum að ná í áburðinn. Skip Eimskipafjelagsins koma ekki í þær sýslur, svo teljandi sje, og það mundi áreiðanlega ekki verða ódýrara að fá aukaskip með áburðinn austur þangað heldur en borga undir hann landleiðina að Selfossi og Þjórsártúni. Því leggur nefndin til, að ríkið greiði flutningskostnaðinn þangað austur. Nefndinni er það ljóst, að það hagar hvergi á landinu til eins og þarna. Engir vegir eru eins fjölfarnir og þessir; þótt bændur austanfjalls vildu nota sína eigin hesta og mannafla til flutningsins, þá er það lítt mögulegt. Það er varla vært á veginum með skepnur, vegna umferðar bifreiða. Flutningurinn yrði því bændum tilfinnanlegur útgjaldaliður. Það kemur altaf ver út fyrir bændur að þurfa að kaupa flutning að heldur en nota sína eigin gripi. Það er því fylsta sanngirni að fara þessa leið hvað þessar sýslur snertir.

Þá virtist nefndinni það rjett að útiloka ekki kaupmenn frá að versla með áburðinn. Það getur staðið svo á, að kaupfjelag er ekkert á ýmsum stöðum, sem skip Eimskipafjelagsins og strandferðaskipin koma á, og er þá eðlilegt og sjálfsagt, að kaupmenn fái hann til sölu, til að gera bændum greiðara fyrir með að ná í hann. En hitt er vitanlegt, að hreppsfjelög og búnaðarfjelög hafa sjaldan yfir miklu húsnæði að ráða, og er því erfitt fyrir þau að taka á móti miklum birgðum í einu.

Í frv. stendur, að leggja megi á áburðinn alt að 5%. Það finst nefndinni óþarflega hátt. Gæti það og leitt til misskilnings hjá bændum, þannig að þeir hjeldu, að okrað væri á áburðinum, þótt ekki væri lagt á hann svo mikið sem heimilað er. Nefndin álítur, að 2% sje nægileg álagning, og leggur til, að frv. sje breytt samkvæmt því.

Aðrar brtt. við frv. hefir nefndin ekki gert. Leggur hún til, að það sje samþykt með brtt. Hefi jeg ekki fleira að segja um frv. að svo stöddu.