15.03.1928
Neðri deild: 48. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2139 í B-deild Alþingistíðinda. (1123)

30. mál, tilbúinn áburður

Einar Jónsson:

Jeg skal lýsa yfir því, að fyrst, er frv. þetta kom fyrir landbn., þá hreif það mig ekki eins sterkt og suma aðra hv. nefndarmenn. Fyrst og fremst er jeg í eðli mínu mótfallinn hverskonar einkasölu sem um er að ræða, ef knýjandi nauðsyn er ekki aðkallandi, og í öðru lagi sá jeg, að lítið væri unnið við það að ljetta flutningsgjöldunum af áburðinum að landinu, ef ekkert væri gert til að ljetta undir með flutninginn upp í landið. Jeg gat ekki komist hjá að taka eftir þeim annmarka frv., að þeim mönnum, sem ekki hafa ástæðu til að versla í kaupfjelögum, er meinað að afla sjer áburðarins gegnum kaupmann sinn. Það er óhentugt, að kaupmönnum sje bannað að hafa á hendi sölu áburðarins. Það er öfugri leið að þurfa að snúa sjer til hreppsfjelagsins. Hjer hagar víðast svo til, að bændur komast að þægilegum samningum við kaupmann sinn um að fá vörurnar teknar út, er þeir þurfa á þeim að halda, gegn því að borga þær á vissum gjalddaga. En það hafa ekki allir ástæður til að versla við kaupfjelög. En ef hreppsfjelögin eiga að fara að versla með áburðinn, þá verður að útvega þeim fje til þess. Annars verð jeg, sem oddviti í mínu hreppsfjelagi, að mótmæla því, að þeim sje gert að skyldu að versla með áburðinn. Jeg gekk því einungis að frv. móti því, að nefndin setti inn í það, að kaupmönnum væri heimilt að versla með áburðinn, ásamt þeim stofnunum, sem í frv. eru nefndar.

Það eru og smávægilegar hagsbætur bændum, þótt ríkið borgi flutningsgjöldin að landinu og meðfram ströndum þess. Víða hagar svo til, að samgöngur á landi eru til mestrar hindrunar því að ná til sín þungavöru. Það kostar 80 kr. að flytja tonnið með bifreiðum austur í Rangárvallasýslu, þangað sem þær komast. Þá tekur við lestaflutningur, 1–2 daga hjá mörgum. Flutningskostnaðurinn er þarna, og ef til vill víðar, svo tilfinnanlegur, að ekki er hægt að leggja mikinn kraft á að afla sjer þessarar vöru, nema eitthvað sje ljett undir í landflutningnum. Það þarf helst að gera með bættum samgöngum, en meðan þeim er ekki komið í betra horf, verður að ljetta eitthvað á flutningskostnaðinum upp í landið.

Eitt vil jeg ekki láta hjá líða að minnast á. Jeg hefi tekið eftir því hjá fróðum mönnum um notkun þessarar vöru, að þau vandkvæði væru á notkun hennar, að það er komið undir því, á hvaða jörð hún á að lenda, hvaða tegund skal kaupa. Í þessu efni hlýtur vanþekkingar mjög að gæta fyrst í stað, og leiðbeiningar verða ekki gefnar í fljótu bragði, heldur verður reynslan að kenna mönnum smátt og smátt. En ef bændur, sem hafa hug á að reyna þessa nýbreytni, færu skakka leið og keyptu ekki þá tegund, sem á við þeirra land, þá hafa þeir einungis eytt peningum til einskis. Veðráttan hefir og sín áhrif eftir sem áður. Ef bóndi kaupir tilbúinn áburð í þeirri von að fá aukinn grasvöxt, en er svo óheppinn, að öll grasspretta eyðilegst í rosa og ótíð, þá situr hann einungis eftir með tapið.

Því verður varla neitað, þótt þetta frv. nái fram að ganga, að nauðsyn sje á að örva bændur og hvetja til að hirða vel sinn eiginn heimafengna áburð, en á það vantar mikið enn. En sæmileg hirðing áburðarins mundi losa menn við mikil útgjöld til kaupa á tilbúnum áburði, og vera mun ódýrari.

Það er varasamt að ætlast til, að bændur leggi út í stór peningaútlát vegna þessa, meðan samgöngum er svo háttað, að flutningurinn verður kostnaðarsamari en varan sjálf komin á höfn. Er því nauðsyn á, að þeim sje hjálpað að sama skapi, sem búa fjarst frá höfn og eiga erfiðast með samgöngur á landi, og þeim, sem nær höfnum búa.

Þótt jeg væri þessu frv. heldur mótsnúinn í fyrstu, þá fór samt svo, að jeg laðaðist að því. Þessi orð mín eiga ekki að vera til þess að leggja móti því, heldur til þess að hv. deild sjái sanngirni í því að samþykkja brtt. nefndarinnar. Þær eru þrjár. Í fyrsta lagi, að ljett sje undir með bændum, sem búa fjarri hafnarstað, að ná sjer í áburðinn. En þar kreppir skórinn einkanlega að bændum í Árnes- og Rangárvallasýslum, sem engin not hafa strandferða meðfram landi — þ. e. milli hafna. — Í öðru lagi, að kaupmönnum sje leyft að versla með áburðinn, og loks, að álag á vöruna sje lækkað.

Jeg hefi tekið eftir brtt. frá hv. 1. þm. N.-M. á þskj. 419, sem nýlega hefir verið útbýtt. Fer hún í líka átt og tillögur nefndarinnar. En jeg á eftir að athuga hana betur og sjá, hvort hún rekur sig á brtt. nefndarinnar og hvað það er, sem fæst með henni. En mjer hefir fundist hún vera í samræmi við hugsanir nefndarinnar. — Vil jeg svo taka undir með hv. frsm. og óska þess, að brtt. nefndarinnar verði samþyktar. Að öðrum kosti verð jeg ekki ánægðari við það, að frv. hefir komið fram, heldur en það hefði aldrei komið í dagsins ljós.