15.03.1928
Neðri deild: 48. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2159 í B-deild Alþingistíðinda. (1129)

30. mál, tilbúinn áburður

Bjarni Ásgeirsson:

Hv. 1. þm. Reykv. hóf mál sitt með því að lýsa því yfir sem sinni skoðun, að þetta mál, áburðarmálið, gæti orðið fjarska mikið framtíðarmál með tíð og tíma. Jeg er honum ósammála í því, að það þurfi tíð og tíma til þess að verða framtíðarmál. Það er þegar orðið aðkallandi framtíðarmál. Það er þegar fengin nægileg reynsla til þess, að hægt er að segja það alveg ákveðið og afdráttarlaust, að án tilbúins áburðar er ræktun landsins svo nokkru nemi blátt áfram óhugsanleg. Jeg ætla að minnast á grein, sem Guðmundur prófessor Hannesson skrifaði fyrir nokkrum árum síðan og bar fyrirsögnina „Trúin á skuldirnar“. Hann hjelt því þar fram, að meðan ekki væri hægt að afla meiri áburðar, væri ekkert vit í að taka lán til ræktunar. Og það er hverju orði sannara.

Það þýðir ekkert að stofna ræktunarsjóð fyrir bændur án tilbúins áburðar. Jeg get þar skírskotað, ekki aðeins til minnar eigin reynslu, heldur og allra þeirra, sem nokkuð hafa við ræktun fengist. Og jeg get nefnt dæmi, sem liggur mjer ekki allfjarri, og það er nýræktin í Mosfellssveitinni. Engri sveit hefir fleygt eins fram í ræktun og Mosfellssveit, síðan bændur þar fóru að kaupa og nota útlendan áburð. Og án tilbúins áburðar hefði slík ræktun verið óhugsandi. Þess vegna er þetta mál nauðsynjamál nú þegar. Sje það viðurkent, þá er spurningin: Hvernig á að gefa bændum landsins kost á að ná í þessa nauðsynlegu vöru sem ódýrast? Hv. þm. (MJ) nefndi skýrslu mína, sem jeg gaf hæstv. Stjórn um för mína til útlanda síðastliðið haust, er jeg fór í því skyni að leita upplýsinga um þessi efni og leita sambanda um áburðarverslun. Hv. þm. ljet svo um mælt, að skýrslan væri skýr og skilmerkileg, þótt annað hefði verið sjer vonbrigði. En annaðhvort er, að skýrslan er ekki skýr og skilmerkileg, ellegar hv. 1. þm. Reykv. er ekki skýr og skilmerkilegur. Því að það kom glögglega í ljós í ræðu hans, að hann hafði ekki skilið neitt af því, sem í skýrslunni stendur.

Jeg skal þá fyrst geta þess, sem mörgum er kunnugt og hv. þm. talaði um, að stofnað hefir verið voldugt verslunarfjelag, sem hefir yfir að ráða miklu af áburðarverslun og áburðarframleiðslu heimsins, sjerstaklega köfnunarefnisframleiðslunni. Þetta er því að verða heimshringur, og hefir hann aðalbækistöð sína í Þýskalandi. Til þess nú að fá þessa vöru sem ódýrasta, er best að komast sem næst því að geta verslað beint við framleiðanda, og þá í þessu tilfelli að ná beinum samböndum við þetta stóra fjelag. Nú er það svo, að þeir, sem best skilyrði hafa hjer á landi til að kaupa í stórum stíl, svo sem eins og S. Í. S., hafa reynt til að komast í beint samband við þetta fjelag á Þýskalandi, en við það hefir ekki verið komandi. Jeg bjóst því við, er jeg fór á fund þessa fjelags, að mjer yrði tekið þar svipað og öðrum hafði verið tekið áður, er þeir fóru þangað í sömu erindagerðum. En viðtökurnar, er jeg fjekk þar, fóru mjög á annan veg. Þegar þeir heyrðu, að heil þjóð, þó að vísu væri lítil, stæði á bak við erindi mitt, og að þetta væri hugsað til að greiða fyrir sölu tilbúins áburðar hjer á landi, þá tóku þeir mjer tveim höndum. En þeir óskuðu þess að gefa ekki ákveðið svar fyr en málið hefði gengið í gegnum þingið hjer. Er það skiljanlegt, að þeir hafi ekki viljað fara lengra vegna sinna umboðsmanna, og hins, að þeir vilja auðvitað ekki óska eftir einkasölu, en að gefa ákveðin loforð væri sama sem að gefa fylstu ástæðu til að samþykkja einkasölu. Þegar jeg samdi skýrslu mína til stjórnarinnar, þá vildi jeg orða hana sem varlegast. En jeg er sannfærður um það, að ef ríkið gerir tilraun til að komast í beint samband við þetta firma, þá muni það takast, ef ekki strax, þá áður en langt um líður. Og jeg er líka sannfærður um það, að það muni varða miklu um verð áburðarins. Jeg veit nú ekki, hvað Dansk Gödningskompagni fær há umboðslaun af því, sem það selur. En jeg veit, að það er talsvert. því jeg veit, að danskir kaupmenn hafa stundum boðið sama verð og það. Og þegar það sjer hag að því að skifta ágóðanum milli sín og annara, þá hlýtur álagningin að vera talsvert mikil. Jeg hygg því, að takast muni að fá áburðinn mikið lækkaðan með því að komast í beinni sambönd. Jeg vil að vísu ekki taka ábyrgð á því, að það muni takast að ná beinum samböndum, en jeg er þó sannfærður um það með sjálfum mjer. Að minsta kosti vil jeg fullyrða það, að eini möguleikinn til þess, að það megi takast, er, að ríkið sjái um áburðarverslunina með því að taka hana í sínar hendur. En þó menn telji sig vera mótfallna einkasölu á áburði, af því að þeir vilji ekki skerða hina frjálsu verslun, þá er það gagnslítil ástæða, þar sem áburðarverslunin er nú á einni hönd hjá Dansk Gödningskompagni, og það getur svo aftur framselt hana á eina hönd hjer, þegar það vill. Jeg vil benda á þessa hættu; reynslan hefir sýnt okkur, að slíkt getur komið fyrir. Búnaðarfjelag Íslands hafði einkasölu á tilbúnum áburði um tíma og engum kom til hugar, að nein hætta væri á því, að Búnaðarfjelagið hjeldi ekki þeirri sölu áfram. En hvernig fór? Án þess menn vissu, á hvern hátt það skeði, og án þess að það atriði sje upplýst enn, þá tapaði Búnaðarfjelag Íslands þessum sölurjetti, sem var fluttur yfir til Nathan & Olsen. Þetta gæti líka komið fyrir með Dansk Gödningskompagni, að það ljeti áburðarverslunina í hendur eins manns eða firma, eins og áður kom fyrir. (PO: Er það ekki upplýst enn, af hverju það var?). Jeg ætla að minsta kosti ekki að fara að blanda því máli inn í þessar umr. nú. Jeg tel sjálfsagt að byrgja þennan brunn nú, svo við steypumst ekki aftur niður í hann. Jeg held, að þessi hv. þm. (MJ) hafi sagt það áður, við umræður um sama efni, að ef áburðarverslunin kæmist á eina hönd, þá væri rjett að taka til þessarar ráðstöfunar. En í þessu vandafyrirbrigði höfum við nú lent áður. Og þótt ríkið gæfi innlendu verslunina frjálsa, þá ætti það þó að taka útlendu samböndin í sínar hendur.

Þá vildi hv. þm. vjefengja það atriði, að þess mætti vænta, að betri kjör fengjust, ef einkasala væri upp tekin. Hann sagði, að þó að samningar tækjust við Berlinarfjelagið, þá yrðu hagsmunirnir svo litlir við þá samninga, að engu munaði. Jeg vil nú segja, að þetta nái ekki nokkurri átt. Og jeg veit, að hv. þm. er svo vel að sjer í verslunarfræði, að hann skilur það vel, hver aðstöðumunur það er, að versla í stórum stíl eða litlum. T. d. mun hann varla neita því, að sá eigi von betri kjara, sem kaupir t. d. um 1000 tn. í einu, en hinn, sem kaupir aðeins nokkra sekki, eins og tíðkast hefir hingað til. Þetta er ekki sambærileg aðstaða. Erlend firmu líta líka líkt á þetta mál. Þau álíta, að hægt verði að komast að miklu betri samningum, ef þeir eru gerðir í einu lagi, heldur en ef innflutningnum er skift í marga staði milli Pjeturs og Páls. Það er alkunn viðskiftaregla, að sá stendur betur að vígi í innkaupum, sem mikið vill kaupa, heldur en annar, sem máske kaupir hundraðfalt minna. Sama er að segja um innflutninginn. Það er meiri von að komast að bestu kaupum, þegar um það er að ræða að lesta heil skip, heldur en þegar semja skal um fáa poka í einu. Jeg er sannfærður um, að hv. þm. veit þetta. — Að vísu sagði hann, að þó verslunin væri gefin frjáls, þá væri eftir sem áður hægt að flytja áburðinn í heilum förmum. Það kann að vera. En kaupmenn hafa ekki gert það hingað til. Það gæti hugsast, að það mætti takast hingað til Reykjavíkur í einstaka tilfellum. En út um land mundi það aldrei geta orðið. Þeir, sem þar búa, munu eflaust altaf fara framhjá þeim hagnaði, sem fæst við það að fragta heil skip í einu. Hjer er því einnig um hagnaðarauka að ræða fyrir áburðarnotendur.

Þá talaði hv. þm. um, að ríkissjóður hlyti að þurfa að binda mikið fje í þessari verslun. Jeg verð nú að segja það, að mjer finst það vanta á, að ekki er nógu greinilega tekið fram í frv., hvaða leið er hugsuð um sölufyrirkomulagið. En jeg býst alls ekki við, að ríkissjóður þurfi að hafa mikið fje bundið í þessari verslun. Jeg geri jafnvel ráð fyrir því, að sölu áburðarins megi koma svo fyrir, að þessi 2% álagning, sem frv. gerir ráð fyrir, verði alveg óþörf. Það þurfi engin álagning að eiga sjer stað. Jeg hugsa sölufyrirkomulagið þannig: Ríkisstjórnin felur Búnaðarfjelagi Íslands að taka á móti pöntunum frá þeim, er ætla að versla með tilbúinn áburð. Þessar pantanir þurfa að vera komnar til Búnaðarfjelagsins fyrir tiltekinn tíma. Búnaðarfjelagið sendir svo þessar pantanir í einu lagi til firma þess í útlöndum, sem samið hefir verið við, og ráðstafar pöntununum á ákveðnar hafnir, eftir óskum kaupenda. Pantandi, hvort heldur er fjelag eða kaupmaður, leysir svo þessa vöru út, hver á sínum stað, við móttöku hennar. Þessi viðskifti ganga eingöngu milli firmans og kaupenda, en ríkið hinsvegar ábyrgist greiðslu áburðarins gagnvart hinum útlendu seljendum. Til tryggingar því, að varan verði leyst út og ríkissjóður tapi ekki á þessu, setur pantandi tryggingu, sem ákveðin verður t. d. 10–15% af verði vörunnar, sem ekki er afturkræft, nema varan sje leyst út. (JJós: Þetta verða liðleg viðskifti!). Það er ekki meining mín, að ríkissjóður þurfi að eiga neitt á hættu vegna þessara viðskifta. — Þetta ætti ekki að verða svo mikið starf fyrir Búnaðarfjelag Íslands, að það þyrfti svo teljandi væri að bæta við sig starfskröftum. Aðalvinnan verður að afgreiða þessar pantanir, og sú vinna ætti að geta orðið því kostnaðarlaus. Ef bændur slá sjer saman og láta fjelög sín, kaupfjelög, búnaðarfjelög eða hreppsfjelög annast um pantanir sínar, þá sje jeg ekki betur en að þetta megi gera alveg kostnaðarlaust. Þannig má ganga frá því, að ríkissjóður þurfi engan verulegan kostnað af versluninni að hafa, og bændur ekki heldur, svo teljandi sje. Að vísu þurfa bændur rekstrarfje til áburðarkaupanna, eins og til annara þarfa. En þar sem svo mikill áhugi virðist vera fyrir því nú á þessu þingi að bæta úr rekstrarfjárþörf bænda, þá ætti ekki að þurfa að kvíða því, að þeir geti ekki keypt þessa vöru eins og hverja aðra. En vitanlega geta menn gert það upp við sjálfa sig, hvort þeir heldur kjósi þetta fyrirkomulag á versluninni eða hitt, að láta kaupfjelög og kaupmenn annast hana, eins og nú er.

Þá ætla jeg lítilsháttar að svara tveimur öðrum hv. þm.Hv. 1. þm. Rang. talaði um, að það væri vandkvæðum bundið fyrir bændur að geta fengið rjettar og viðeigandi áburðartegundir. Jeg skal segja hv. þm. það, að Búnaðarfjelag Íslands lætur nú gera mjög myndarlegar tilraunir með þetta, og hann má reiða sig á, að bændur verða jafnharðan látnir vita um niðurstöðurnar. Geta þeir þá hagað áburðarkaupum sínum eftir því, sem best reynist.

Þá er það hv. þm. Barð., sem jeg þarf lítilsháttar að svara. Háttv. þm. sagði, að þetta mál væri lítils virði fyrir aðra en þá fáu menn, sem eru þannig settir, að þeir geti notað tilbúinn áburð. Þetta er vitanlega alveg rjett. (HK: Þá fáu, sem hafa kaupgetu). En hjer eru nú óvíða efnaðir bændur, og því ekki um neinn andstæðan skilning að ræða. En jeg er viss um, að ef bændur komast á það stig að telja sjer tilbúinn áburð nauðsynlegan, þá muni þeir og hafa einhver ráð með að láta hann fljóta með annari nauðsynjavöru. Jeg er alveg sannfærður um það, að á slægnalitlum harðbalajörðum er miklu betra að kaupa nokkuð af tilbúnum áburði, til að bera á valllendisbletti, heldur en að taka dýrt kaupafólk til þess að reyta saman hey á ljelegum engjum. Á því má áreiðanlega spara mikið. Jeg er því viss um, að tilbúni áburðurinn á erindi til fátækra sem ríkra. En auðvitað þarf veltufje til þessara þarfa sem annara, eins og jeg gat um áður.

Þá var sami hv. þm. að tala um, að svo mikið væri til af ónotuðum áburði í sveitunum, að það væri að bera í bakkafullan lækinn að vera að greiða fyrir notkun tilbúins áburðar. Jeg viðurkenni það fúslega, að áburðarhirðingin er enn ekki komin í það horf, sem skyldi, þó mikið sje nú gert til að kippa henni í lag. En þótt áburðarhirðingin sje enn ekki komin í æskilegt horf alstaðar, þá er þetta mál ekki ótímabært, því að þó það sýnist vera dálítið einkennilegt, þá er það þó svo, að þeir, sem fara að kaupa tilbúinn áburð, fá mestan áhuga fyrir því að hirða vel heimafengna áburðinn. Þetta hefi jeg víða rekið mig á. Það er eins og að reynslan um útlenda áburðinn hafi kent mönnum að meta og hirða heimaáburðinn. Og ef við eigum að gera okkur vonir um stórstígar framfarir í nýræktinni, þá eru þær framkvæmdir óhugsandi nema með hjálp tilbúins áburðar.

Jeg skal svo láta hjer staðar numið að sinni. Ef til vill gefst tækifæri til að víkja nánar að ýmsu viðvíkjandi þessu máli síðar.