15.03.1928
Neðri deild: 48. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2181 í B-deild Alþingistíðinda. (1133)

30. mál, tilbúinn áburður

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg vil lýsa ánægju minni yfir því, inn á hvaða braut umræður um þetta mál eru komnar, þegar það er borið saman við önnur mál, sem stundum hafa verið rædd hjer dag eftir dag án þess að vikið væri að mál efninu sjálfu. Jeg vona, að eins fari um þetta mál og jarðræktarlögin, er þau voru samþ. Þá leit út fyrir allmikinn storm í fyrstu, en menn vildu koma málinu fram og vildu koma sjer saman, og því endaði alt í sátt og samlyndi. Mjer finst þetta bera svo að hjer, bæði eftir ræðu háttv. 2. þm. Skagf., er síðast talaði, að dæma og brtt. hv. 1. þm. N.-M., og finst það benda til þess, að þetta mál verði afgreitt hjeðan í betri mynd en það kom í frá Ed., eða það hefir fengið nokkru sinni áður. Hv. landbn. steig fyrsta sporið í þá átt að gera sem flestum kleift að afla sjer áburðarins. Hv. 1. þm. N.-M. gengur enn lengra í þá sömu átt. Hv. 2. þm. Skagf. benti nú á nýtt atriði, sem virðist vert að athuga nánar. Vona jeg, að þetta verði alt athugað til hlítar milli 2. og 3. umr. Mjer hefir heyrst, að hv. 1. þm. N.-M. og hv. landbn. sjeu ásátt um að fresta till. sínum til 3. umr., til þess að hægt verði að komast að samkomulagi.

Auðvitað var það tilgangur frv. frá byrjun, að menn fengju sem líkasta aðstöðu um öflun áburðarins. Er því ástæðulaust að víkja að þeim mönnum, sem hjer hafa talað á móti frv., þeim hv. þm. Barð. og hv. 1. þm. Reykv., enda máttu ræður þeirra heita áreitnislausar. Háttv. 1. þm. Reykv. sagði m. a. í ræðu sinni, að hann gerði ráð fyrir, að frv., gæti orðið til gagns, og kvaðst ekki mundu leggjast á móti flutningsstyrknum. Jeg þarf heldur ekki að taka ummæli hv. þm. Barð. illa upp. Hann kvaðst vita, að frv. væri borið fram af trú á málið, og vonaði, að okkur yrði að þeirri trú. Þótt hann sje nú meiri Tómas en við hinir, vona jeg, að fari um hann eins og hinn gamla Tómas, að augu hans uppljúkist síðar og hann gleðjist með okkur hinum.