15.03.1928
Neðri deild: 48. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2186 í B-deild Alþingistíðinda. (1136)

30. mál, tilbúinn áburður

Bjarni Ásgeirsson:

Jeg þarf að svara ýmsu, sem hjer hefir fram komið, og mun þá byrja á háttv. 1. þm. Reykv. Hann reyndi að snúa út úr því, að jeg hafði sagt, að þeir notuðu mest innlendan áburð, sem lengst væru komnir í hagnýtingu erlends áburðar. Þetta skýrði hann svo, að þegar menn færu að nota erlendan áburð, sæju menn fyrst yfirburði hins innlenda. Þarf auðvitað ekki að eyða orðum að því, hvílík fjarstæða þetta er. Þegar menn sjá verkanir erlenda áburðarins, verður mönnum fyrst ljóst, hvers virði áburður er yfirleitt, og fara því að vanda til hagnýtingar innlenda áburðarins.

Líka gæti sú skýring verið rjett, að þessir menn hefðu frá upphafi haft meiri skilning á gildi erlends og innlends áburðar en aðrir.

Þá sagði hv. þm., að ekki væri að marka notkun áburðarins kringum Reykjavík, af því að þar væri um sjerstaka aðstöðu að ræða. Jeg skal viðurkenna, að þetta er rjett eins og stendur. En undir eins og aðstaða manna úti um land batnar til að afla sjer áburðarins, þá mun alveg sama áburðarþörfin og áburðarhungrið gera vart við sig hjá þeim eins og nú í kringum Reykjavík. Það er alveg fráleitt að þykjast vilja stuðla að ræktun landsins, en vilja ganga framhjá þessum nauðsynlegasta þætti í henni.

Hv. 1. þm. Reykv. og hv. 2. þm. Skagf. voru að efast um, að ríkiseinkasala væri besta leiðin til þess að komast í beint samband við verslanirnar. Reynslan verður þar ólygnust. Einstök fjelög hafa reynt til þess, en það hefir ekki tekist. Undirtektir þær, sem jeg sem sendimaður stj. fjekk hjá fjelaginu, virðast benda til þess, að ríkiseinkasala standi þar langtum betur að vígi.

Annars gerði hv. 1. þm. Reykv. lítið úr þeirri togstreitu, að vera að reyna að komast í beint samband við verksmiðjurnar, og hjelt jafnvel, að ógagn yrði að. En nú er það flestum kunnugt, að hver einasti milliliður kostar peninga. Menn vilja fá vinnu sína borgaða, og helst meira, ef hægt er. Það er því augljóst, að mikið væri unnið, ef hægt væri að búa svo um hnútana, að engin álagning lenti á vörunni á leiðinni frá framleiðanda til neytanda. Þetta skilur hver maður með viti og það á við hjer, eins og annarstaðar.

Hjer er að vísu aðeins um einn þröskuld að ræða á leiðinni, Dansk Gödningskompagni. Takist okkur að komast framhjá því, er mikið unnið. Eins og jeg gat um í skýrslu minni, eigum við ekki víst að njóta sömu kjara og fjelag þetta, en úr því verður reynslan að skera. Ef einkasalan verður til þess, að áburðarnotkun aukist að mun, eru meiri líkur til þess en áður. En jafnvel þótt þetta tækist ekki, er þó ávalt vissa fyrir að komast á þennan hátt að næsta áfanga, þeim, að Dansk Gödningskompagni verði eini milliliðurinn. En að öðrum kosti höfum við enga tryggingu fyrir því, að ekki komist aðrir í spilið, sem geti skattlagt bændur fram yfir það, sem þörf er á.

Hitt væri líka hugsanlegt, að ríkiseinkasalan væri rekin þannig, að eingöngu væri að ræða um umboðssölu milli hinna erlendu seljenda og þeirra, sem versluðu með áburðinn hjer innanlands, hverjir svo sem það væru, og hallast jeg heldur á þá skoðun, það svo ætti að vera. Jeg lýsti því áðan, að fyrirkomulagið ætti eiginlega að vera svo, að Búnaðarfjelag Íslands væri einskonar tengiliður milli hinna erlendu seljenda og þeirra, sem versluðu með áburðinn hjer. Það yrði til þess að koma versluninni í eina heild, en það mundi aftur bæta aðstöðuna út á við.

Hv. þm. mintist á það, að það gæti orðið um svo litla sölu að ræða, að vafasamt væri, hvort hagur væri að því, að alt væri á einni hönd. En okkar kaup verða tiltölulega það lítil, að ef alt verður ekki pantað í einu, þá verðum við útilokaðir frá því að njóta jafngóðra kjara og erlendar stórverslanir.

Þá var hv. þm. að tala um það, að ekki gæti komið til mála að haga versluninni svo, að pantanir um áburð, er sveitamenn þyrftu að fá, yrði að senda til aðalverslunarinnar einhvern tíma vetrar, því þá væri ekki svo gott að sjá, hvað menn þyrftu mikið. En þetta er alveg það sama og nú á sjer stað og ekki nein ástæða að ætla, að það yrði nokkuð erfiðara, þó ríkiseinkasölu yrði komið á.

Þá þarf jeg að svara hv. 2. þm. Skagf. nokkrum orðum. Hann sagðist hafa verið með svipuðu frv. einhverntíma áður, því þá hefði verið hætta á því, að áburðarverslunin kæmist á eina hönd, en slík einokun hefði getað orðið til þess, að áburðurinn hefði orðið of dýr. En jeg get ekki sjeð, að við sjeum lausir við þá hættu ennþá. Þessi verslun er í höndum einstaks verslunarfjelags erlendis, svo við getum altaf átt á hættu, að hún lendi hjer í höndum þeirra, sem gætu lagt meira á þessa vöru en góðu hófi gegnir, eins og líka átt hefir sjer stað áður. Það er því best að byrgja brunninn áður en barnið er dottið í hann og tryggja það strax, að við getum ráðið nokkru um verðlag þessarar vöru.

Hv. þm. var hræddur um það, að með þessu fyrirkomulagi á áburðarversluninni yrði landsstj. aðeins nýr milliliður, er gerði áburðinn dýrari en hann þyrfti að vera. Jeg skal viðurkenna það, að eins og frv. liggur fyrir mætti skilja ákvæðið um þessi 2% eða 5% svo, að þar væri um aukaálagning að ræða, en til þess þarf samt ekki að koma. Að vísu mundi það baka Búnaðarfjelaginu dálítinn kostnað, en það yrði ekki neitt verulegt. Jeg hefi borið það undir verslunarfróða menn, hvað kostnaðurinn við þetta mundi verða mikill, og hafa þeir allir verið sammála um það, að kostnaðaraukinn mundi alls ekki verða verulegur, í mesta lagi hjálp í nokkra daga.

Þá var hv. 2. þm. Skagf. að tala um það, að ekki væri mikil þörf á því að gera víðtækar ráðstafanir til þess að flytja tilbúinn áburð inn í landið, meðan bændur hugsuðu ekki betur um að hirða áburðinn en nú ætti sjer stað. En jeg verð að segja það, að ef við eigum að bíða eftir því, að allir bændur hirði vel áburðinn, þá er jeg hræddur um, að við megum bíða nokkuð lengi. Og þó áburðarhirðing sje víða mjög skamt á veg komin, þá er þörfin svo knýjandi hjá mörgum, að það er ekki afsakanlegt að láta þá gjalda þeirra, sem trassa að hirða áburðinn. Út af því, sem hv. þm. sagði, að rjettara væri að brenna kolum, en nota taðið til áburðar, heldur en kaupa tilbúinn áburð. vil jeg taka það fram, að ef um það tvent er að ræða, hvort kaupa skuli kol eða áburð, þá hygg jeg, að það verði bæði hyggilegra og ódýrara að kaupa áburðinn.

Það kom fram hjá hv. þm., að það mundu eingöngu verða bændur í kringum kaupstaðina, sem yrðu aðnjótandi þeirrar hjálpar, er felst í frv. hvað flutningana snertir. En jeg er sannfærður um, að það líður ekki á löngu áður en bændur hafa yfirleitt aðstæður til þess að flytja áburðinn heim til sín á sæmilega ódýran hátt, og enginn vafi er á því, að notkunin eykst eftir því sem bændum skilst, hve hún er þýðingarmikil. Það er líka gert mikið að því á ári hverju að bæta samgöngurnar á landi með vegagerðum, svo það eru margir á ári hverju, sem fá betri aðstöðu að því er flutninga snertir. Það er enginn vafi á því, að þegar samgöngur eru komnar í sæmilegt horf, þá borgar sig miklu betur að kaupa tilbúinn áburð og nota hann heimavið heldur en að hafa dýrt fólk við heyskap á þýfðum og graslitlum engjum. Og reynslan mun sýna, að menn vilja heldur kaupa tilbúinn áburð en eltast við ljelegar slægjur. Vitanlega er það svo víða, að bændur geta alls ekki náð í tilbúinn áburð, en það er líka gefið, að það borgaði sig að nota hann víðar en gert er. Sumstaðar er það orðið svo, að bændum þykir ódýrara að nota hann heldur en t. d. þang eða slor, því vinnan við það er svo dýr. Og þegar hlutföllin eru orðin svo, þá er ekki vafi á því, að þessi vara á rjett á sjer og fullkomlega rjett að álykta af þessu, að hún verði mikið notuð í sveitum þessa lands, þegar tímar líða.

Hv. þm. Dal. spurði um það, hvaða reglum væri fylgt um þetta í nágrannalöndunum, hvort þar væri einokun eða frjáls verslun. Eftir því sem jeg veit best, er þessi vara ekki „monopoliseruð“ þar, en við það er ekki miðandi hjer, því aðstæður eru hjer allar aðrar. Jeg veit ekki betur en að í Noregi, Svíþjóð og Danmörku sjeu það samvinnufjelögin, er versla með þennan áburð, og hafa þau bein viðskifti við þýska hringinn, er framleiðir hann. Samvinnufjel. hjer mundu ekki geta fengið bein viðskifti við Þýskaland, heldur mundu þau verða að ganga í gegnum Danmörku. Þetta er því að vissu leyti sjálfstæðismál fyrir okkur að geta fengið þessa vöru án þess að Danir sjeu þar milliliðir. Þetta er því virðingarverð tilraun til þess að losna við dönsku milliliðina, og skil jeg ekki í öðru en að jafnmikil sjálfstæðishetja og hv. þm. Dal. er kunni að meta hana.

Undanfarin ár hefir verið hörð barátta um yfirráð áburðarverslunarinnar milli danskra samvinnufjelaga og annara fjelaga þar, meðal annars Dansk Gödningskompagni, og hefir sú barátta endað svo, að samvinnufjelögin náðu þar undirtökunum og hafa nú á sínu valdi verðlag áburðarins. Hjer erum við svo smáir og langt í burtu, að við mundum lenda í höndum þeirra, er fengju umboð hjá Dansk Gödningskompagni. Það er því svo, að ef við eigum að geta reist rönd gegn valdi þessarar verslunar, þá er það eina ráðið að flýja á náðir ríkiseinkasölunnar. Það er hin sterka aðstaða dönsku samvinnufjelaganna, er hefir gert þá sjálfstæða í þessum efnum. En við höfum ekki svo góða aðstöðu, að við getum látið samvinnufjel. hafa forgöngu þessa máls, og því eigum við ekki annars úrkosta en að snúa okkur til ríkisvaldsins og fá hjálp þess.

Þá get jeg ekki komist hjá að minnast nokkrum orðum á þá grýlu, sem svo mjög hefir verið hampað hjer, sem sje hræðsluna við ríkiseinkasöluna. Er það að vísu ekki að undra, þó henni sje hampað hjer, jafnkærkomið vopn og hún virðist vera ýmsum hv. þm. í þessari deild. En jeg verð að segja það, að jeg sje heldur lítinn skyldleika milli einokunarverslunarinnar gömlu, sem var í höndum erlendra manna og rekin beinlínis til þess að auðgast á henni, og hins, þó þjóðfjelagið geri ráðstafanir til þess að skipa málum sínum í hvert skifti eftir því, sem best hentar. Þetta er ekki „princip“mál fyrir mjer, heldur hagsmunaatriði. Og það er hart, að hv. þm. sumir hverjir skuli vera þeir „princip“þrælar að setja þetta undir eins í samband við hina gömlu og illræmdu einokunarverslun, enda þótt hjer sje um að ræða sama nafnið og þá, þ. e. einkasölu.

Þetta minnir á mann nokkurn, sem stolið var frá, en var eftir það svo hræddur um, að stolið yrði frá sjer, að hann faldi peninga sína, en það svo vel, að hann gat ekki fundið þá sjálfur. Það er alveg það sama, er hendir þá, er þora ekki að láta þjóðfjelagið taka þetta í sínar hendur, sem sje hræðsla við sjálfa sig.

Jeg get að lokum ekki stilt mig um, í sambandi við hættu þá, er hv. þm. Dal. hjelt fram, að fylgdi því, ef þetta frv. yrði samþ., að minna á ræðu, sem hann hjelt um daginn, og kvað þess brýna nauðsyn, að við eignuðumst háðskáld. Jeg skal fúslega játa, að þess væri full þörf, þó það yrði ekki til annars en að fækka ræðum, er svipar til þeirrar, er þessi hv. þm. hjelt í dag í þessu máli.