02.03.1928
Neðri deild: 37. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 653 í B-deild Alþingistíðinda. (115)

1. mál, fjárlög 1929

Frsm. (Ingólfur Bjarnarson):

Jeg vildi víkja nokkrum orðum til hv. 2. þm. Reykv. (HjV) út af því, sem hann sagði um skólagjöldin. Hann virtist telja það galla á þeim, að auðmenn úti um landið slyppu að fullu og öllu við þau. Dæmi geta máske verið til þess, að það sje rjett. En jeg hefi áður bent á hinn mikla aðstöðumun utan- og innanbæjarmanna í þessu efni. Hv. þm. var að tala um, að efnuðum borgurum í Reykjavík veittist erfitt að kosta 2–3 börn sín í skóla og greiða fyrir þau skólagjöld. Ef svo er, hversu erfitt mun þá ekki mönnum úti um land veitast þetta, þótt efnaðir teljist, að kosta uppihald fleiri barna sinna hjer í Reykjavík í einu, jafnvel þótt ekki bætist skólagjöld við? (HjV: Þess vegna eiga skólagjöld að leggjast niður). Jeg get gengið inn á, að skólagjöldunum megi kannske breyta að einhverju leyti, en það vil jeg fullyrða, að þeim sje svo hagað í framkvæmd, að fátækum nemendum sjeu gefin þau upp að einhverju eða öllu leyti.

Jeg hygg, að hv. þm. (HjV) fari ekki alveg rjett með, þegar hann segir, að skólagjöldin hafi verið 24 þús. kr. síðasta ár við mentaskólann. (HjV: Jeg hefi fyrir mjer brjef rektors). Í yfirlitsskýrslu fjmrh. yfir fjárhag ríkissjóðs 1927 segir, að þau hafi verið 15 þús. kr. árið 1927, og samkv. landsreikningunum 23,6 þús. 1926, 26 þús. 1925 og 15,5 þús. 1924. Og eru þessar tölur vitanlega miðaðar við alla skólana. Virðist því vera allmikill munur á skólagjöldunum frá ári til árs, og bendir það til þess, að ekki sje farið eftir algerlega föstum mælikvarða um álagningu þeirra og að misjafnlega mikil eftirgjöf sje veitt. Mætti sennilega bæta um tilhögun þeirra að einhverju leyti, en ekki get jeg fallist á, að rjett sje að fella þau niður. Alþýðuskólarnir hafa orðið að byggja tilveru sína að miklu leyti á skólagjöldum, og því getur það ekki talist sjerlega hart, þótt efnaðir bæjarmenn greiði skólagjöld fyrir börn sín, t. d. við mentaskólann.

Um borðfje konungs er það að segja, að sú venja hefir gilt í 10 ár, að það væri greitt í dönskum krónum, og sá nefndin ekki ástæðu til að bregða þeirri venju. Um fjárveitinguna til sendiherrans í Kaupmannahöfn var ekki tekin afstaða í nefndinni, hvort greiðast skyldi í dönskum krónum eða ekki, en það kom fram, að svo hefir verið gert að undanförnu.

Jeg hefði viljað víkja nokkrum orðum að hv. þm. Dal. (SE), en geymi það, af því að jeg sje, að hann er ekki viðstaddur.