29.03.1928
Neðri deild: 60. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2231 í B-deild Alþingistíðinda. (1155)

30. mál, tilbúinn áburður

Frsm. (Lárus Helgason):

Eins og nál. á þskj. 447 ber með sjer, gerði landbn., þegar hún hafði þetta frv. til meðferðar, mjög litlar breytingar á því, en lagði til, að það yrði samþ. Svo að segja óbreytt.

En síðan frv. var hjer til 2. umr. hafa komið fram allmargar brtt., sem nefndin hefir nú athugað, og vil jeg þá fyrir hennar hönd lýsa því yfir, að hún er einhuga um að leggja á móti þeim öllum. Nefndin vill ekki hagga þeim aðalgrundvelli, sem frv. byggist á, en yrðu þessar brtt. samþ., mundu þær breyta grundvelli frv. mjög mikið.

Þá vil jeg og geta þess, að nefndin hefir komið sjer saman um að taka aftur 1. brtt. sína á þskj. 447, um ókeypis flutning að Selfossi og Þjórsártúni. Nefndin hefir orðið vör við andúð gegn þessari brtt., þótt hún hinsvegar telji hana ekki rjettmæta eða á rökum bygða, því að það mundi ekki reynast ódýrara fyrir landið að láta strandferðaskip annast þennan flutning til kauptúnanna í Árnessýslu eða austur með Söndunum í Rangárvallasýslu heldur en að senda áburðinn með bifreiðum á þessa tvo ákvörðunarstaði. En sem sagt, nefndin hefir komið sjer saman að taka þessa brtt. aftur, en af því leiðir þá það, að hún getur heldur ekki fallist á aðrar brtt., sem fara fram á að veita samskonar ívilnun um flutning áburðarins landleiðina.

Að svo mæltu sje jeg ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um málið að svo stöddu.