29.03.1928
Neðri deild: 60. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2233 í B-deild Alþingistíðinda. (1157)

30. mál, tilbúinn áburður

Jón Sigurðsson:

Það hefir verið bent á það áður, bæði af mjer og öðrum hv. þdm., að frv. þetta eins og það liggur fyrir felur í sjer tvö óskyld mál. Í fyrsta lagi er það um einkasölu á áburði, en jafnhliða heimild fyrir hæstv. stjórn að greiða fyrir flutning áburðarins til landsins.

Jeg hefi nú, ásamt hv. þm. Borgf., borið fram brtt. um þetta á þskj. 574, og er þá 1. brtt. um að breyta einkasölufyrirkomulaginu frá því, sem lagt er til í stjfrv.

Það hefir verið tekið fram, að tilgangurinn sje að ná hagkvæmara sambandi um kaup á norskum og þýskum áburði. Meðmælin eru hin sömu og vant er að færa með öllum einkasölum, og sje jeg ekki ástæðu til að fara að þessu sinni að gera einkasölufyrirkomulagið, að umtalsefni. Jeg geri ráð fyrir, að reynslan yrði svipuð og viljað hefir brenna við þar, sem slíkt fyrirkomulag hefir verið tekið upp: Innkaupin síst betri og öll afgreiðsla næsta þung í vöfum, af því að þeir, sem að henni starfa, vinna ekki fyrir eiginn hag.

Auk þess bættist hjer við nýr milliliður, þar sem ríkið er. Reynslan yrði þá sú, að bændur keyptu áburðinn hjá kaupfjelagi sínu eða þeim kaupmanni, sem þeir versla við, kaupfjelagið eða kaupmaðurinn yrði að snúa sjer til S. Í. S., en það aftur til Búnaðarfjelags Íslands, sem kaupa yrði af ríkinu, er áburðinn útvegaði beint frá verksmiðjunum. Með þessu móti eru milliliðirnir orðnir nokkuð margir, svo reynslan mundi verða sú, að allerfitt mundi þetta ganga í framkvæmdinni. Þetta fyrirkomulag hlýtur að verða kostnaðarsamt og óhjákvæmilegt, að ríkið liggi með birgðir, enda stj. heimilt að leggja á 5%. Nú þykist jeg mega gera ráð fyrir, að S. Í. S. og önnur fjelög líti svo á, að þeim beri engin skylda til þess að liggja með vöruna. Þess vegna sje jeg ekki ástæðu til, að haldið sje út á þessa braut, af því að telja má nokkurnveginn víst, að það verði almenningi ekki til neinna hagsbóta, heldur þvert á móti.

Með 1. brtt. okkar er ætlast til, að stj. sjái um, að Búnaðarfjelag Íslands nái einkaumboði fyrir Ísland í þessu efni, og aðalverkefni Búnaðarfjelagsins sje að sjá um, að, þeir, sem með áburðinn versla, leggi ekki frekar á hann en sem nemur hæfilegum ómakslaunum. Þar sem um svona einkasöluumboð er að ræða, er það mjög algengt, að kaupfjelög eða kaupmenn snúa sjer til verksmiðjanna eftir að hafa fengið meðmæli frá einkaumboðsstofnuninni, er tekur þá sínar prósentur frá verksmiðjunum fyrir að útvega Sambandið. Með þessu vinst þá það, að milliliðunum fjölgar ekki og að varan heldur áfram að vera á sömu hönd og áður, sem er rjett og eðlilegt, enda í samræmi við það, sem Alþingi hefir áður lýst yfir í þessu efni. Sje jeg svo ekki ástæðu til að orðlengja frekar um þetta atriði.

Þá kem jeg að öðrum þætti frv., um flutningskostnað þann, sem ríkissjóði er ætlað að greiða. Jeg hefi lýst því yfir áður, að jeg teldi þetta einungis eyðslu á ríkisfje, þar sem með þessu næst nálega ekkert það til gagns, sem virðist þó hafa vakað fyrir stjórninni. Og mín skoðun byggist meðal annars á því, að alt að 19/20 af tilbúnum áburði, sem til landsins flytst, fer til Reykjavíkur, kaupstaðanna og sveitanna umhverfis þá. Nú er vitanlegt, að þarna hafa orðið skjót umskifti um aukna ræktun, sem stafa af því, að hvergi er jafngóð aðstaða fyrir markað og aukna ræktun eins og þar. Þessum mönnum þarf því ekki að kenna að notfæra sjer tilbúinn áburð; þeir eru áreiðanlega búnir að sjá og reyna, hvers virði hann er fyrir aukna ræktun. Ennfremur mætti benda á, að flutningskostnaðurinn frá útlöndum, um 2 kr. eða kr. 2,50 á tunnu, er svo lágur og þar af leiðandi svo lítill liður í öllum ræktunarkostnaðinum, að það er barnaskapur að ímynda sjer, að það skifti nokkru um framtak einstaklinganna í kaupstöðum og grendinni. Jeg tel að minsta kosti ekki ástæðu til að leggja áherslu á þetta.

En af því að nú eru horfur á, að þetta mál nái fram að ganga, þá höfum við hv. þm. Borgf. leyft okkur að koma með brtt. um rjettlátari skiftingu á styrknum en hæstv. stj. hefir hugsað sjer í frv. samkvæmt frv. er gert ráð fyrir, að þeir áburðarnotendur, sem í Reykjavík búa, eða á Akureyri eða í kaupstöðum og í grend við þá, fái allan áburðarflutninginn greiddan frá útflutningshöfn, eða sama sem 100%. En í langflestum sveitum, sem þó eru vel settar með samgöngur, mun það nema um 1/3 af flutningskostnaðinum, eða sem svarar um 30-45%. Bárðdælingar, sem eru fremstir í Suður-Þingeyjarsýslu, fá greiddan 1/5 kostnaðarins, en það svarar til um 20%. Hjá Austurdælum í Skagafjarðardölum nemur það um 1/6, eða um 17%. Aftur á móti munu Jökuldælir í Norður-Múlasýslu og uppsveitamenn í Rangárvallasýslu ekki fá nema um 1/8 greiddan af flutningskostnaðinum, en það svarar til um 12–13%.

Þetta yfirlit er að vísu ekki nákvæmt, en það gefur þó nokkurn veginn hugmynd um, hversu hróplegu misrjetti fjöldi bænda væri beittur, ef frv. stj. væri samþ. óbreytt.

Þessar tölur sýna ennfremur, hversu till. hv. landbn. og hv. 1. þm. N.-M. eru fráleitar og ófullnægjandi um að greiða úr ríkissjóði flutningskostnaðinn út í Árnes- og Rangárvallasýslur og upp í Fljótsdalshjerað. Ástæðulaust að taka þessar tvær sýslur út úr, þegar sýnt er, að í ýmsum öðrum hjeruðum er flutningskostnaðurinn nálega jafnmikill eða meiri, og gæti jeg í því sambandi nefnt Hólsfjöll, sem jeg hefi ekki tekið með í samanburði mínum.

Með brtt. okkar hv. þm. Borgf. er reynt að gera öllum landsmönnum hlutfallslega jafnt undir höfði, sem kostur er, með því að miða styrkinn við flutningskostnað frá útflutningsstað til notkunarstaðar. Þess vegna leggjum við til, að veitt sje úr ríkissjóði ákveðin upphæð, sem Búnaðarfjelag Íslands úthlutar í þessu skyni, á meðan þetta er á tilraunastigi. Jeg verð að telja það mikinn kost að hafa upphæðina þannig ákveðna, í stað þess að alt leiki í lausu lofti, eins og nú er með frv., og þó enn frekar ef brtt. hv. 1. þm. N.-M. og hv. landbn. verða samþyktar. Ennfremur skal jeg benda á, að Búnaðarfjelagi Íslands er samkv. till. okkar falið að safna skýrslum um áburðarnotkun landsmanna, svo ekki þarf að ætla, að það bresti kunnugleika til þess að skifta styrknum rjettlátlega niður.

Jeg vil þá benda hv. deild á, að þegar hún greiðir atkv. um brtt. á þskj. 574, þá eiga þm. að velja milli þess: að láta ríkissjóð greiða allan flutningskostnaðinn, eða 100%, fyrir kaupstaðina á sama tíma og bændur víðsvegar á landinu fá flestir greitt úr ríkissjóði aðeins um 12–40% af þeim flutningskostnaði, sem óumflýjanlega hvílir á áburðinum, og svo till. okkar hv. þm. Borgf., að ríkissjóður styrki sjerhvern áburðarnotanda, hvort sem hann er búsettur í kaupstað eða einhverstaðar uppi til dala, hlutfallslega jafnt, miðað við flutningskostnað á áburði hans frá útflutningshöfn til notkunarstaðar.

Það er um þetta tvent að velja, og jeg vil að óreyndu ekki trúa því, að hv. deild hallist á þá sveifina, sem ver gegnir, að veita þeim styrkinn, sem síst þarfnast hans. Eins og jeg tók fram við fyrri umr. þessa máls, að ef þörf er á einhverri hjálp í þessu efni, þá er það fyrst og fremst þeim mönnunum, sem búa fremst til dala, sem þarf að hjálpa — dalabændunum, sem hafa litla túnbletti og enn minni áburð, af því að þeir verða að treysta á beitina sem hægt er. Þar er hver töðubagginn dýr og því helst þörf á skjótri hjálp til þess að græða út túnin. Þess vegna vona jeg, að hv. deild minnist þessara manna og þeirra örðugleika, sem þeir eiga við að búa, þegar hún greiðir atkvæði um þetta mál.