02.03.1928
Neðri deild: 37. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 654 í B-deild Alþingistíðinda. (116)

1. mál, fjárlög 1929

Gunnar Sigurðsson:

Jeg vildi koma með örstutta aths. viðvíkjandi 13. gr. Vegamálastjóri hefir lagt til, að lagaður yrði vegarspotti yfir svonefndan Hvolsvöll í Rangárvallasýslu. Hjer er um stuttan en mjög fjölfarinn veg að ræða, sem verður með öllu ófær í rigningum á haustin, til ærins farartálma. Jeg verð að láta óánægju mína í ljós yfir því, að stjórnin hefir ekkert fje ætlað til þessa, enda þótt hún hafi þá afsökun, að margt fleira varð að bíða af slíkum framkvæmdum meðan ekki var sjeð um nýjar tekjulindir. Jeg vil þó vona, að hún geti tekið vegarspotta þennan upp í fjárlög á þessu þingi. Vegurinn er stuttur og fremur kostnaðarlítil aðgerð, því að vegurinn liggur um valllendi, en ekki mýri. Vil jeg beina þeirri áskorun og ósk til stjórnarinnar, að hún taki þetta sem fyrst til athugunar.