29.03.1928
Neðri deild: 60. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2242 í B-deild Alþingistíðinda. (1161)

30. mál, tilbúinn áburður

Hákon Kristófersson:

Jeg er alveg hissa á þessum síðustu orðum háttv. form. landbn., því að jeg álít ummæli hv. þm. Borgf. fyllilega rjettmæt. Það er fyrst við þessa umr., að það kemur í ljós, að aðaltilgangur í þessu máli er sá, að styðja flutningana til landsins, en ekki út um sveitir. (LH: Jú, meðfram ströndunum). En hvaða rjettlæti er í því, að þeir, sem næst búa, fái mest, en þeir, sem fjærst búa, minst af flutningskostnaðinum? Þess vegna lít jeg svo á, að það sje mikil sanngirni í till. á þskj. 574. Hitt held jeg ekki rjett, að þar sje farið með öfgar í málinu. Hverjir eru það í kaupstöðum, sem eru líklegir til þess að nota áburðinn mest? Þeir, sem hafa efni og getu fram yfir allan almenning. Jeg býst við því, að það sje svo í garðinn búið fyrir þetta mál, að það muni ná fram að ganga, hvað sem jeg og hv. þm. Borgf. segjum, en jeg vildi láta það sjást, að þeir menn væru til, sem kæmu auga á ýmislega galla á því eins og það er nú.

Ef það er frambærilegt, að bændur verði látnir flytja áburðinn eina eða tvær dagleiðir á hestum sínum styrklaust, þá held jeg, að það sje miklu frambærilegra, að þeir, sem einungis þurfa að láta flytja áburðinn milli landa, greiði einnig sinn flutningskostnað. (LH: Það hafa allir gagn af ókeypis flutningum milli landa). Já, það er rjett, en aðstaða þeirra, sem fjærri eru, er svo miklu verri en hinna, að jeg get ekki talið líklegt, að það hafi farið framhjá jafnprýðilega skýrum og greinagóðum þm. eins og hv. form. landbn. heldur sig vera og er. Og jeg er alveg hissa á hv. form. og öðrum hv. þm. í landbn., að þeir skuli ekki hafa fallist á till. þeirra hv. þm. Borgf. og hv. 2. þm. Skagf. Hvorki jeg nje aðrir hafa slegið því föstu, að ókeypis flutningar til landsins sjeu óþarfir, en við lítum svo á, að aðstaða kaupstaðabúa væri þeim mun betri en bænda, að hægt væri, að þeir bæru þann kostnað sjálfir.

Þetta er allsherjar nauðsynjamál landbúnaðarins, — og því þá ekki að leggja áherslu á, að það nái fullkomlega tilgangi sínum, með því að samþ. till. á þskj. 574, sem einmitt stefna í þá átt? Jeg vil enda á því sama, sem hv. frsm. endaði ræðu sína á, nefnilega að fela till. dómi hv. deildar, og jeg vænti þess, að hv. deild hafi ekki enn lokað svo augum sínum, að hún sjái ekki þær sanngirniskröfur, sem eru á því, að þær verði samþyktar.