23.02.1928
Efri deild: 30. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2254 í B-deild Alþingistíðinda. (1175)

22. mál, menningarsjóður

Jón Þorláksson:

Jeg hefi skrifað undir nál. með fyrirvara, en það snertir ekki brtt. þær, sem þar eru tilfærðar, enda er jeg þeim samþ. og tel þær allar fremur til bóta.

Fyrirvari minn byggist á því, að jeg er óánægður með þá leið, sem farin er til þess að afla sjóðnum tekna. Raunar álít jeg, að hjer sje ekki um annað að ræða en að útvega lagafyrirmæli um að leggja meira af mörkum úr ríkissjóði til lista og vísinda en verið hefir. Þess vegna hefi jeg ekki viljað setja mig upp á móti þessu, þar sem stjórnin fer fram á að fá heimild til þess og álítur, að hún sjái sjer fært að miðla þessum styrk af venjulegum tekjum ríkissjóðs.

Eins og jeg sagði, er jeg óánægður með þá leið, sem farin er, ekki þó vegna þess, að mjer finnist meiri sori fylgja þeim peningum, sem í ríkissjóð drjúpa fyrir áfengissektir, heldur en annað. Heldur finst mjer, að utan um þetta mál sje það, að í staðinn fyrir siðsamlega notkun áfengis sje beinlínis gert ráð fyrir í lögum, að áfengisbrotin verði sem mest og stærst, og þá um leið einskonar fjeþúfa fyrir listamenn, og mjer finst, að út af þessu muni spretta alvöruleysi um brot á áfengislöggjöfinni. Það er þessi stefna frv., sem jeg kann illa við, en gat ekki fengið meðnefndarmenn mína til að viðurkenna. Hinsvegar hefi jeg ekki borið fram neinar brtt. til þess að lagfæra þetta, og það af þeim ástæðum, að reynslan hefir sýnt, að hv. stjórnarflokkar hjer í deildinni eru svo viðkvæmir fyrir brtt. á stjfrv., að það er ekki til neins að bera hjer fram í hv. deild brtt., þótt af góðum toga sjeu spunnar; meiri hl. hefir ekki viljað fallast á þær, þótt auðsætt sje, að þær miði til bóta.

En þessa athugasemd vildi jeg láta fylgja með fyrirvara mínum í nál. á þskj. 256.