23.02.1928
Efri deild: 30. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2256 í B-deild Alþingistíðinda. (1177)

22. mál, menningarsjóður

Jón Þorláksson:

Jeg veit, að ef hv. frsm. (PH) væri hjer staddur, myndi hann bera vitni um, að jeg hafi haldið hinu sama fram í nefndinni og jeg gerði í ræðu minni áðan. Það má náttúrlega segja, eins og hv. þm. Ak., að engu skifti, hvað af fje ríkissjóðs sje notað til þessa. En þegar þessu fje er fyrirfram ráðstafað með lögum, er það ekki lengur fje ríkissjóðs. Þá nærist menningarsjóðurinn eingöngu á fje því, sem inn kemur vegna lögbrotanna, og á beinlínis alla sína afkomu undir því.

Það verður að virða hv. þm. Ak. það til vorkunnar, að hann er ungur í sessi og þekkir ekki þingvenjur. En jeg vil benda honum á, að það hefir aldrei áður þekst hjer, að menn væru svo viðkvæmir, að ekki mætti samþykkja svo auðsæjar lagfæringar á stjfrv., sem hjer er um að ræða.