31.03.1928
Neðri deild: 62. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2258 í B-deild Alþingistíðinda. (1185)

22. mál, menningarsjóður

Magnús Jónsson:

Jeg vil aðeins leyfa mjer að gera nokkra grein fyrir brtt. minni hl. nefndarinnar, sem jeg og hv. þm. Vestm. höfum borið fram á þskj. 632. Í 3. gr. eru talsvert margbrotin fyrirmæli um stjórn hinna einstöku starfsgreina sjóðsins. Um þau ákvæði, sem lúta að bókaútgáfu sjóðsins, hygg jeg, að þegar frá er tekinn prófessorinn í íslenskum bókmentum, þá sje engin trygging fyrir því, að í hinar stöðurnar veljist altaf menn, sem hæfir sjeu til þessa. Þó að maður sje hæfur til að kenna íslensku sómasamlega í kennaraskólanum, þá er ekki víst, að hann hafi öðrum fremur vit á að velja úrvals skáldrit til að gefa út, og sama er að segja um prófessorinn í sögu. Við viljum því í allri vinsemd vekja athygli á því, hvort ástæða sje til að láta þessa menn vera sjálfkjörna til að stjórna þessu, ef það lán kemur fyrir sjóðinn, að honum áskotnist fje við það, að einhver lendi í því óláni að verða sekur við lög landsins.

Að því er kemur til náttúrufræðinnar, þá má gera ráð fyrir, að þessir menn sjeu allir vel hæfir, sem þar til eru nefndir, en um einn þeirra er það að segja, að hann er búsettur í fjarlægð, og því nokkrir annmarkar á að ná til hans, og hvað hina snertir, er óþarfi að taka þá með hjer, vegna þess að ráðið getur altaf kvatt þá til ráðuneytis.

Við höfum af þessum ástæðum lagt til, að stjórn sjóðsins sje að öllu leyti í höndum ráðsins sjálfs og að því sje heimilt að kveðja sjerfræðinga sjer til ráðuneytis.

Á þessu er sá mikli kostur, að það er einfaldara. Jeg skal svo ekki orðlengja um þetta. Jeg býst ekki við, að þetta verði mikið deilumál, en atkvgr. verði látin skera úr.