31.03.1928
Neðri deild: 62. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2260 í B-deild Alþingistíðinda. (1186)

22. mál, menningarsjóður

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Við nefndarmennirnir þrír getum ekki fallist á brtt. minni hl. Við teljum okkur ekki hafa fundið neinn allsherjar sannleika í þessu efni, en viljum fá reynslu á því skipulagi, sem frv. felur í sjer, og lítum svo á, að síðar megi breyta lögunum, ef þau gefast illa að einhverju leyti.

Jeg hefi eins mikla trú á því, að fleiri ráði, sjerstaklega að því er snertir þann hluta, sem ganga á til náttúrufræði, og er eins gott að láta þá greiða úrslitaatkvæði eins og að láta yfirstjórnina um það að fella eða samþykkja eftir tillögum annara. Ef einhver skorast undan að taka að sjer störf vegna sjóðsins, viljum við láta ráðið skipa í auð sæti.

Hv. 1. þm. Reykv. tæpti á, að eitthvað væri bogið við, hvernig ætlast er til, að tekna sje aflað. Það má fallast á, að upphaf þeirra sje ekki sem viðfeldnast, en hitt er annað mál, hvort nokkur hætta sje á ferðum um það, að menn fari að gera leik að því að brjóta lögin til þess að veita sjóðnum tekjur. Þessir peningar mundu hvort sem er falla til ríkisins og sjálfsagt verða varið til einhvers, sem betur væri gert en ógert. En oft veitir erfitt að ná fje til þess, sem á að vinna til menningar, nema helst því aðeins, að það sje tekið af þeim tekjum, sem ekki eru áætlaðar. Hjer er um það fje að ræða, sem þingið getur tæplega gert áætlun um meðal tekna. Það er og gamall siður að láta mammon ranglætisins vinna eitthvað gott sjer til afsökunar, og verður það ekki með öðru betur gert en að styrkja listir og vísindi.