27.03.1928
Neðri deild: 58. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2265 í B-deild Alþingistíðinda. (1199)

140. mál, fjáraukalög 1927

Magnús Guðmundsson:

Út af síðustu orðum hv. frsm., um rannsóknirnar á Bergþórshvoli, vil jeg benda á það, að það var búist við því, að rannsóknunum yrði lokið á síðasta ári, og því var ekki hægt að taka fjárveitingu til þeirra upp í fjárlögin fyrir 1928. Það er alveg rjett, að það á að vera sem minst um slíka liði sem þennan, en jeg býst þó við, að stj. verði neydd til að fara sömu leið nú í ár. Rannsóknirnar eru svo merkilegar, að við megum ekki skirrast við að leggja fram nokkurt fje til þeirra.

Um daufdumbraskólann er óhætt að fullyrða það, að byggingin verður greidd með hinum seldu lóðum. Það eru þau bestu kaup, sem ríkissjóður hefir gert, þegar hann keypti þessar lóðir með gamla húsinu fyrir 37 þús. kr. Það var mikið talað um það á sínum tíma, en það hefir sýnt sig, að þetta var hyggileg ráðstöfun.

Út af byggingarkostnaðinum á Bergþórshvoli vil jeg segja það, að jeg hygg, að hann stafi af þál. um að hafa bygginguna með sjerstöku sniði. Það getur verið, að fleiri orsakir sjeu til þessa, t. d. veit jeg ekki nema sementið hafi verið dýrt.