02.03.1928
Neðri deild: 37. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 657 í B-deild Alþingistíðinda. (120)

1. mál, fjárlög 1929

Jóhann Jósefsson:

Hv. frsm. mótmælti brtt. minni um fjárveitingu til sjúkrahúss í Vestm.eyjum, af því að þar væri vikið frá grundvallarreglunni um styrk til sjúkrahúsa, og auk þess hefði gefandi sjúkrahússins sett það skilyrði, að ekki mætti leita því opinbers styrks. Hvað fyrra atriðinu viðvíkur, þá er það aðeins formsatriði, sem fjvn. skýtur sjer undir. Jeg hefi sýnt fram á, að hjer er ekki að ræða nema um 1/3, sem ríkissjóður er að öðru leyti skyldur að greiða. En síðara atriðið er rangt. Gefandi setti að vísu þetta skilyrði í fyrstu, en því var neitað af bæjarstjórn, og er hún því ekki á neinn hátt bundin við það. Bæjarstjórnin vildi einmitt ekki afsala sjer þessum rjetti. Brtt. mín er því fullkomlega leyfileg gefandans vegna. Jeg er satt að segja hissa á, að fjvn. skuli geta lagst á móti þessari brtt. eftir þann undirbúning, sem mál þetta hefir fengið. Einskis eyris hefir verið krafist úr ríkissjóði fyr í þessu skyni, og jeg held, að það geti síður en svo ýtt undir menn að ganga of langt í slíkum kröfum, þótt brtt. verði samþ. Hjer hafa borgararnir lagt á sig meira en þeim bar skylda til. Jeg held, að hv. frsm. hafi ekki heyrt rjett, er hann sagði, að jeg hefði sagt, að þetta væri einsdæmi. Jeg sagði, að fá dæmi myndu vera til þess, að sjúkrahúsi hefði verið komið upp án nokkurs styrks úr ríkissjóði.

Um hina till. mína, að veita mönnum styrk til að fá sjer gervilimi, sagði hann, að erfitt myndi reynast að fullnægja þeim beiðnum, er fram kæmu. Jeg er þess fullviss, að hv. frsm. hefir verið það erfið skylda að mæla á móti þessari brtt. Því að það er vitanlegt, að enda þótt öllum þurfandi mönnum verði ekki sint í einu, þá kæmi þetta smátt og smátt allmörgum mönnum að liði, sem þurfa að fá sjer gervilimi. — Jeg skal gjarnan játa, að örlítil hjálp er í styrk þeim til gervilimasmiðs, er hv. frsm. nefndi, fyrir þá menn, sem þurfa að fá sjer limi hjer á landi. En þetta er ekki til mikillar hjálpar fyrir þá, sem fjevana eru og vantar annaðhvort fót eða hönd. Vona jeg fastlega, að hv. þd. fallist ekki á till. nefndarinnar í þessu máli.