27.03.1928
Neðri deild: 58. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2265 í B-deild Alþingistíðinda. (1200)

140. mál, fjáraukalög 1927

Fjmrh. (Magnús Kristjánsson):

Það er fátt, sem hv. fjvn. hefir haft að athuga við frv., enda hygg jeg, að flestir liðirnir sjeu þannig, að erfitt sje að komast hjá þeim. Flestar upphæðirnar eru frá tíð fyrverandi stj., og sje jeg enga ástæðu til að tala um þær. En jeg vil benda á þá liði, sem varða núverandi stjórn.

10. liður 5. gr. er til loftræstinga í mentaskólanum. Það er enginn vafi, að þetta var sjálfsagt.

11. liður sömu gr. er til girðingar um lóð kennaraskólans. Sömuleiðis sjálfsögð fjárveiting.

14. liður 5. gr. er til smásjárkaupa handa háskólanum. Þetta var óumflýjanlegt, til þess að læknaefnin gætu lagt nauðsynlega stund á vísindagrein sína.

5. liður 7. gr. er til kostnaðar við stíflu á aðfærsluskurði við Miklavatnsmýraráveituna. Um þetta hefir áður verið rætt hjer og það upplýst, að menn hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum hvað snertir árangurinn af þessu fyrirtæki. Og mjer er óhætt að fullyrða, að þessi fjárveiting er til að bæta úr ágöllunum.

3 fyrstu liðir 8. gr. eru um greiðslu eftirlauna til þriggja uppgjafastarfsmanna og stafa af mismunandi reglu um það, frá hvaða tíma eftirlaunin eru reiknuð. Jeg held, að það sje ljóst, að þau beri að reikna frá þeim tíma, sem maðurinn lætur af starfi. Þessir menn hafa ekki fengið launin strax, og þetta er leiðrjetting á misrjettinu, sem þeir hafa orðið fyrir. Jeg get sagt það, að jeg álít sjálfsagt, að eftirlaunin sjeu reiknuð frá þeim tíma, sem menn fara frá starfi.

Um 3. lið 9. gr. má vera, að ágreiningur verði. Jeg hygg þó, að þessi upphæð sje ekki meiri en svo, að allir geti orðið sammála um, að starf nefndarinnar sje þess virði, sem veitt var til hennar.

Jeg sje ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta, vegna þess að í athugasemdunum er gerð grein fyrir hverjum lið. Jeg vona, að frv. verði samþ. eins og nefndin leggur til.