13.02.1928
Efri deild: 21. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2274 í B-deild Alþingistíðinda. (1217)

23. mál, friðun Þingvalla

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson):

Jeg hefi ekki getað fallist á, að það væri rjett að taka til friðlýsingar jafnstórt svæði sem stjfrv. gerir ráð fyrir. Það eru tvær ástæður til þess. Önnur er kostnaðurinn. Svæðið, sem stjfrv. fer fram á að friðlýsa, sýnist við lauslega mælingu vera 50 ferkm. Og eftir því, hvernig friðlýsingunni er ætlað að vera, mun ekki vera talsmál að framkvæma hana á annan hátt en bæði með sauðheldri girðingu og þar að auki með mikilli vörslu. Þetta hygg jeg, að öllum verði ljóst, sem athuga ummörk svæðisins, sem liggja bæði yfir marga alfaravegi og þjóðvegi, þar að auki um ákaflega mikið mislendi, þar á meðal upp á eitt af hæstu fjöllum hjer í nágrenni. En hinsvegar er áleitni mikil á þetta land, einkanlega á vorin, af sauðfje nágrannajarða og nágrannasveita.

Mjer virðist þetta muni vera alt of kostnaðarsamt, bæði að framkvæma girðinguna og halda henni við, og halda ennfremur uppi þeirri vörslu, sem útheimtist til þess, að ákvæði stjfrv. nái tilgangi sínum.

En höfuðástæða mín er sú, að jeg vil ekki leggja niður þau býli, sem nú eru á þessu svæði. Jeg get ekki fundið næg rök fyrir þörf á niðurlagning þeirra. Svæðið er í sjálfu sjer ákaflega víðlent, þetta skógivaxna hraun, sem er nú kringum þessi býli. Það er svo rúmgott, að það mætti að skaðlausu taka hluta af skóginum og girða þá, ef menn vilja, til þess að hlynna að vexti hans. En jeg get ekki sjeð, að það standi í neinu sambandi við að friða þingstaðinn og þá fornsögulegu helgi, sem á honum er, þegar farið er fram á að leggja niður býli eins og Hrauntún og Skógarkot, sem liggja í mikilli fjarlægð þar frá og sjást ekki einu sinni frá þingstaðnum, nema kannske af einstöku hæðum. En það yrði óhjákvæmileg afleiðing af stjfrv., að þessi býli yrði að leggja niður sem bændabýli; hitt gæti komið til mála, að lána grasnyt innan túns þeim starfsmönnum, sem yrðu launaðir til þess að hafa gæslu þessa svæðis.

Af þessum ástæðum hefi jeg ekki viljað fylgja stjfrv. óbreyttu, en lagt það til sem aðalbreytingu, sem felst í 1. brtt. minni á þskj. 143, að þessi ummörk hins friðlýsta svæðis verði hin sömu sem stjórnin stakk upp á í frv., sem var lagt fyrir Nd. 1926. Þau ummörk voru þar tiltekin eftir uppástungu nefndar, sem stjórnin hafði skipað til að undirbúa þetta mál. Í nefndinni áttu sæti þjóðmenjavörður, húsameistari ríkisins og vegamálastjóri.

Jeg heyrði hv. frsm. meiri hl. ekki færa fram önnur rök fyrir sínu máli hvað ágreining um stærð svæðisins snerti en að það væri of lítið fyrir þann ferðamannastraum, sem sækti til Þingvalla nú og í framtíðinni. En sjálfsagt er meira en 9/10 hlutar af þeim fólksfjölda fólk úr Reykjavík og nágrenni, sem aðeins fer til Þingvalla á sunnudagsmorgna og hverfur heim aftur að kvöldi. Og það munu ekki vera nema örfáar undantekningar, að það fólk fari út fyrir það svæði, sem jeg hefi tiltekið í minni brtt. Meira að segja fer það ekki um nema tiltölulega lítinn hluta þess svæðis, líklega ekki meira en 1/3, sem er þingstaðurinn sjálfur og allra næsta nágrenni fyrir norðan hann. Og hvað snertir aðra ferðamenn, sem koma til lengri dvalar, þá get jeg ekki sjeð, að Þingvallahraun og beitilönd jarða þar í kring þurfi að vera fremur lokuð fyrir þeim heldur en þau eru nú, ef þeir vilja sjer til skemtunar fara gönguferðir eitthvað dálítið lengra frá þingstaðnum.

Þetta er þá höfuðbreytingin. En svo eru vitanlega ýmsar aðrar breytingar, sem felast í till. mínum. Þar á meðal geri jeg ráð fyrir, að stjórninni sje skylt að halda uppi lögskilum öllum á hinu friðlýsta svæði, en fer fram á að fella niður ákvæði stjfrv. um friðun villidýralífs á þessu svæði. Meiri hl. vill lagfæra stjfrv. með því að taka upp heimild fyrir Þingvallanefndina til að gera ráðstafanir um eyðingu refa. En sú umbót er ekki fullnægjandi. Það eru lög í landi, að það er skylda að útrýma refum. En eftir stjfrv. er ekki meiningin að gegna þeirri skyldu á hinu friðlýsta svæði á þann hátt, sem landslög standa til. Það er ekki nóg að gefa Þingvallanefnd heimild. Það þarf á þessu svæði sem annarsstaðar að vera bæði heimilt og skylt að vinna að útrýmingu refa, ef þeirra verður vart. Og það hygg jeg náist með því ákvæði, sem jeg hefi stungið upp á, að ríkisstjórnin geri lögskil af landinu að þessu eins og að hverju öðru leyti.

Þá hefi jeg stungið upp á þeirri breytingu frá stjfrv., að til ársloka 1930 komi afmælisnefnd Alþingis fram stjórninni til aðstoðar um þetta mál, hvað friðlýsingu snertir, en að þá fyrst taki við sjerstök til þess kjörin Þingvallanefnd. Mjer finst ekki ástæða til að hafa báðar þessar nefndir samtímis og vil sneiða hjá því með brtt. minni.

Jeg hefi svo tekið upp helstu ákvæði úr stjfrv. frá 1926, sem miða að því að heimila stjórninni að gera þær ráðstafanir, sem viðeigandi þykja til þess að friða og hlynna að því landi, sem eftir mínum tillögum á að vera áfram í ábúð frá prestssetrinu eða hjáleiga þaðan, en stjfrv. fer fram á að friðlýsa. Það er svæðið, sem 5. gr. brtt. minna hljóðar um.

Þá hefir mjer þótt rjett að setja í frv. heimild fyrir sjálfa afmælisnefnd Alþingis að taka land til afnota, svo sem hún telur þurfa, vegna hátíða halda 1930. Jeg geri ráð fyrir hvort sem er, að það muni þykja rjett að hafa slíka heimild, og jeg skil í raun og veru brjef Þingvallanefndarinnar, sem birt er í greinargerð stjfrv., sem tilmæli um að fá einmitt þetta, sem jeg sting hjer upp á, þar sem hún fer fram á, að stjórnin með sjerstöku tilliti til hátíðahaldanna 1930 undirbúi og leggi fyrir næsta Alþingi lagafrumvarp, þar sem hinu opinbera sjeu trygð full umráð Þingvallalands og þess nágrennis, sem þurfa þykir.

Þetta er rjett athugað, að það þarf að tryggja nefndinni hverskonar afnot af landi kringum þingstaðinn, sem henni þykir þurfa vegna hátíðahaldanna, og það er það, sem jeg orða með 6. brtt.

Mjer þykir svo ekki ástæða að fjölyrða meira um þetta að svo stöddu.