13.02.1928
Efri deild: 21. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2278 í B-deild Alþingistíðinda. (1218)

23. mál, friðun Þingvalla

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Það hefir verið skýrt frá því áður, að stjfrv. um friðun Þingvalla fyrirskipi ekki girðingu um hið friðlýsta svæði, heldur er ætlað að leggja það í vald þeirrar nefndar, sem kosin verður samkvæmt frv., hvort landið skuli girt eða ekki, og á hvern hátt. Það getur náttúrlega verið, að það verði erfitt að halda uppi girðingu þarna á þeim takmörkum, sem lýst er í frv., að hún mundi ekki standast snjó á vetrum; en það er þá þeirrar framkvæmdarstjórnar, sem hjer er kölluð Þingvallanefnd, að ákveða, á hvern hátt landið skuli varið, hvort það skuli girt að nokkru og varið að nokkru o. s. frv. En ástæðan til þess, að við viljum hafa svæðið svo stórt, er þetta, sem hv. frsm. minni hl. rjettilega hafði eftir mjer, að við búumst við svo auknum gestafjölda til Þingvalla í framtíðinni. Við hátíðahöldin 1930 búast menn við, að komi mesti fjöldi til Þingvalla, og ekki síst erlendra manna. Verður það nokkurskonar auglýsing fyrir staðinn út á við, svo að búast má við, að mjög mikill fjöldi erlendra manna komi þá næstu árin, að sínu leyti eins og konungskoman 1907 var nokkurskonar auglýsing fyrir Þingvelli. Gestagangur hefir verið þar margfalt meiri eftir en áður. Það er athugandi, að eins og nú stendur eru byggingar svo litlar á Þingvöllum, að það er ekki hægt að taka á móti nema takmarkaðri tölu gesta. Þar eru áreiðanlega miklu minni húsakynni en menn gjarnan vildu nota. En úr því verður að bæta á einhvern hátt. Með auknum húsakynnum mundi því gestastraumurinn til Þingvalla vaxa stórum, og fjöldi þeirra gesta; sem þangað sækti, ekki sætta sig við hið takmarkaða svæði hv. 3. landsk. Afleiðingin yrði þá sú, að gestirnir dreifðust út um alt hraun og gerðu usla á jörðum ábúenda, eins og við hefir viljað brenna og kvartað hefir verið undan á síðustu árum.

Hinsvegar er það ekki víst, að leggjast þyrfti niður með öllu ábúð í Skógarkoti, þó að friðað yrði og girt svæði það, sem frv. fer fram á. Mjer þykir því sennilegt, að búskapur, t. d. með kýr, haldist áfram í Skógarkoti. Þar eru ágætir sumarhagar fyrir kýr og góður markaður fyrir mjólkina á sumrin. Ekki er heldur ósennilegt, að þar mundi halda áfram að vera gisting fyrir þá menn, er dvelja vildu þar eystra um tíma, og hún aukast. Mjer er kunnugt um, að á Kárastöðum, Brúsastöðum og í Skógarkoti hefir verið yfirfult af sumargestum allan þann tíma, er gestir haldast við austur þar. Er því sennilegt, að ábúendur jarðanna mundu hafa talsverðar tekjur af greiðasölu og ef til vill þóknun fyrir eftirlit með hinu friðlýsta svæði.

Hv. frsm. minni hl. álítur, að brtt. okkar meiri hl. við d-lið 2. gr. eigi ekki við. En jeg held einmitt, að hún eigi vel við og sje nauðsynleg til þess að taka af allan vafa um fyrri málsliðinn. Því að vitanlega kemur það ekki til mála, að þetta friðlýsta svæði eigi að verða einskonar uppeldisstofnun fyrir refi, eins og drepið var á í einu dagblaðinu nýlega. Hinsvegar segir það sig sjálft, að ef til þess kemur að eyða þurfi refum á þessu svæði, þá mundi Þingvallanefnd gera ráðstafanir til þess í samráði við nærliggjandi sveitir.

Þá vill hv. frsm. minni hl. ekki hafa tvær nefndir, heldur fela þau störf, sem frv. nefnir, Þingvallanefnd þeirri, sem nú er starfandi. En hjer er um alóskyld verkefni að ræða. Núverandi Þingvallanefnd er aðeins kosin til þess að sjá um undirbúning alþingishátíðarinnar 1930, en hin nefndin, sem kjósa á eftir frv., er framkvæmdanefnd, sem Alþingi kýs og á að hafa alla yfirstjórn hins friðlýsta lands, einnig eftir 1930. Enda er það ærinn starfi, sem hátíðanefndin hefir með höndum, og eykst þó drjúgum, eftir því sem nær líður hátíðinni, svo að á það er ekki bætandi.

Það mun líka sýna sig, að starf hinnar væntanlegu nefndar verður margþætt. Jeg get vel hugsað mjer, að ekki líði á löngu þangað til gerðir yrðu vegir eða stígar um Þingvallahraun, til þess að gera gestunum auðveldara að ferðast um svæðið. Ef slíkir vegir yrðu lagðir, sem gæti verið einskonar hringbraut, efast jeg ekki um, að fólkið mundi dreifast víðsvegar um hið friðlýsta svæði og halda minna kyrru fyrir en tíðkast nú.

Með frv. er gert ráð fyrir, að taka megi gjöld af gestum, sem ljetta þá undir kostnaðinn, sem af því hlýtst að friðlýsa svæðið. En þó að hjer gæti verið um einhverjar tekjur að ræða fyrir ríkissjóð, álít jeg, að varlega verði að fara og gjaldið verði að vera svo lágt, að það fæli ekki almenning frá því að sækja til Þingvalla.

Hv. frsm. minni hl. gerði ráð fyrir, að 9/10 allra Þingvallagesta væru Reykvíkingar, sem færu þangað að morgni og heim sama kvöldið. Það er rjett, að fjöldinn allur af Reykvíkingum skreppur þangað austur og dvelur þar dagstund. En þessu veldur meira húsnæðisskortur sá, sem er á Þingvöllum, en að fólkið geri sig ánægt með að dvelja þar svo skamma stund. Þar er altaf yfirfult af gestum, og menn verða lengi að bíða eftir því að komast að. Þó að svona snöggar ferðir tíðkist nú, þá eru miklar líkur til, þegar vegir eru komnir um hraunið og fleira er gert til þess að auka þægindi gesta, að aðsókn bæði innlendra manna og útlendinga til Þingvalla aukist mjög eftir 1930 og mun þá varla veita af þessu svæði til frjálsrar umferðar, eftir því sem fært kann að þykja vegna friðunar skógarins.

Um brtt. hv. minni hl. á þskj. 143 get jeg verið fáorður. Við erum þar á öndverðum meiði, eins og sjest á því, að við í meiri hl. leggjum til, að stjfrv. sje samþ. með lítilsháttar breytingum, en hv. minni hl. ber hjer fram frv., sem er alt annars efnis. Það eina í brtt. á þskj. 143, sem ástæða væri kannske til að sinna að einhverju leyti, er ákvæðið, sem felst í 6 brtt. um að tryggja nægilegt land og landsnytjar í landi Þingvallakirkju, Kárastaða og Brúsastaða vegna hátíðahaldanna 1930. En þó virðist nægur tími að gera þetta með sjerstökum lögum á næsta þingi, ef samkomulag næst ekki um þetta. Annars er mjer kunnugt um, að báðir ábúendur Kárastaða og Brúsastaða eru fúsir til samninga um landsnytjar þetta umrædda sumar, og geri því ráð fyrir, að þeir verði liðlegir. Það er þá aðeins um Þingvallaklerk að ræða, en ótrúlegt, að hann láti sjer sæma að vera óliðlegur í samningum um nauðsynlegar landsnytjar alþingishátíðarinnar vegna.