13.02.1928
Efri deild: 21. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2282 í B-deild Alþingistíðinda. (1219)

23. mál, friðun Þingvalla

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg þarf ekki að tala langt mál; aðeins vildi jeg fara nokkrum orðum um þær aðallínur, sem marka stefnu hv. meiri og minni hl. í þessu máli.

Um brtt. hv. meiri hl. get jeg verið fáorður; þær eru ýmist til bóta, eða þá að öðru leyti þess eðlis, að jeg get fallist á þær. Að því leyti er jeg þakklátur hv. meiri hl., hvernig hann hefir tekið í frv.

Aftur á móti er skoðanamunur mikill milli hv. meiri og minni hl., enda kom mjer síst á óvart afstaða háttv. 3. landsk. Hún er hin sama og lýsti sjer hjá flokksbræðrum hans 1923, er við Guðmundur Guðfinnsson bárum hjer fram í deildinni frv. um friðun Þingvalla.

Þegar jeg var að semja þetta frv., hafði jeg í huga, að Þingvellir væru svo mikið listaverk frá náttúrunnar hendi, að tryggja yrði það með lögum, að mönnum gæti ekki, af fávisku sinni, haldist uppi að spilla útliti staðarins meira en orðið er.

Dufferin lávarður, sem var heimskunnur maður, sagði fyrir mörgum árum, að það væri tilvinnandi að ferðast um hálfan hnöttinn til þess eins að sjá Almannagjá. Í augum þessa heimsfræga manns var Þingvöllur með umhverfi sínu sú perla, sem á engan hátt mátti saurga eða spilla.

Jeg skal nefna lítið dæmi, sem allir þeir, sem komið hafa hjer inn fyrir bæinn, kannast við, en sýnir átakanlega, hversu fátæklegur listasmekkur sumra manna er um fegurð náttúrunnar. Á mel innarlega við Sogamýrina, norðanmegin vegarins, hafa verið reist fyrir skömmu tvö steinsteypuhús. Þau eru ekki óásjálegri en mörg önnur hús, sem reist hafa verið víðsvegar um bæinn. En þarna inn frá ber mikið á þessum kassamynduðu kumböldum. Húsin standa of hátt og verða þyrnir í augum þeirra manna, sem skilja list, af því að þau brjóta þær mjúku línur, sem eru í landslaginu. Maðurinn, sem bygði þessi hús, hafði fullan rjett til að gera það. Hann átti landið og mátti því notfæra sjer það á þann hátt, sem hann vildi vera láta. En á meðan smekkur manna leyfir slíkt, þá er ekki gott að vita, hvað langt verður gengið í því að brjóta línur náttúrunnar og brjála fegurð hennar. Við skulum t. d. hugsa okkur, að presturinn á Þingvöllum og bóndinn á Brúsastöðum leyfðu einhverjum að reisa hús sitthvoru megin við Öxará, þar sem hún fellur ofan í Almannagjá. Jeg er ekki að segja, að þetta verði gert, en það er heldur ekkert því til fyrirstöðu, að svo geti orðið. En yrðu nú álíka steinsteypukassar og á melásnum innan við Sogamýrina reistir við Öxarárfoss, þá mundu þeir stórum spilla allri fegurð og útliti Þingvalla. Ef hv. 3. landsk. treystir sjer að neita þessu, þá held jeg, að jeg og eflaust margir fleiri fari að efast um fegurðarsmekk hans.

Það, sem vakir fyrir þeim mönnum, sem ekki vilja spilla útliti Þingvalla, er það, að náttúran og hennar listasmíði frá örófi alda fái að njóta sín sem best. Hinsvegar verður því ekki neitað, að ýmsar byggingar þarf að reisa á Þingvöllum á næstu árum, t. d. kirkju og bæjarhús, en allar slíkar nýbyggingar verða að vera þann veg gerðar, að þær falli inn í heildarsvip Þingvalla.

Merkur Englendingur sagði við mig í sumar: „Alt, sem þið byggið á Þingvöllum, verður að vera í stíl við gjána“. Og þetta er hverju orði sannara. Það er einmitt Almannagjá, sem skapar stílinn. Gæti jeg því ímyndað mjer, að grískur byggingarstíll mundi falla vel inn í línur og svip staðarins. Og þegar að því kemur, að bygt verður á Þingvöllum, þá verður það að gerast eftir nákvæmri athugun listamanna og með það fyrir augum að spilla ekki því mikla listaverki, sem þjóðskáldið góða sagði um, að „guð og eldur“ hefðu einir getað skapað.

Nú er það svo, að á þessu svæði, sem báðir nefndarhlutar eru sammála um, að verði friðlýst, eru 3 timburhús, og margir í Þingvallanefnd eru þeirrar skoðunar, að þessi hús verði að hverfa fyrir 1930. Þessi hús eru: Valhöll, konungshúsið og sumarbústaður í Fögrubrekku, sem er eign einstakra manna. Um Valhöll er það að segja, að hún særir minst fegurðarsmekk listhneigðra manna, því að hún er þó bygð í íslenskum bæjarstíl. En konungshúsið, sem er ríkiseign og er bygt eins og venjulegur kaupstaðarkumbaldi, særir óþægilega augað. Og þó að margt megi segja um einstakra manna húsið í Fögrubrekku, þá hefir það þó unnið það gagn að opna augu almennings fyrir því, hvernig ekki eigi að byggja í umhverfi Þingvalla.

Þó full þörf sje á að byggja gistihús á Þingvöllum fyrir 1930, geri jeg samt ráð fyrir, að hátíðarnefndin sjái sjer ekki fært að bera fram till. um það. Hún vill ráðast í sem minstan kostnað, en þó gæti komið til mála að flytja þessi hús, sem jeg nefndi, á þann stað nærlendis, sem minna bæri á þeim.

Það, sem ber þá á milli mín og hv. 3. landsk., er þetta: Jeg og þeir, sem mjer fylgja að málum, viljum ekkert það aðhafast, sem spilli útsýni Þingvalla. Við lítum á Þingvöll sem dýrgrip, sem þjóðin öll á, og þennan dýrgrip á að vernda, svo að náttúrufegurð staðarins geti notið sín. Þetta eru okkar kröfur í þessu máli.

Fyrir hv. 3. landsk. vaka lægri kröfur. Hann vill að vísu ganga inn á að friða vellina og dálítið svæði norður eftir. En þetta friðlýsta svæði hans er ekki stærra en svo, að utan við það gæti risið upp einskonar Grímsstaðaholt, í skjóli skipulagsleysis og stundarhagnaðar einstakra listsnauðra manna. Bændur gætu óátalið leyft að byggja úti um alt hraun, svo að þar risu upp ljelegir sumarbústaðir, sem yrðu einskonar hreiður fyrir fólk úr Reykjavík.

Við viljum ekki hamla því, að gestir komi til Þingvalla. Ánægjulegast, að þangað sæki sem flestir. En við viljum ekki láta gestunum haldast uppi að setja neinn þann svip á staðinn, er spilli útsýni hans og fegurð. Við vonum að geta verndað og geymt Þingvöll, svo að óbornum kynslóðum gefist kostur á að skoða hann óskemdan og geti skemt sjer við að njóta fegurðar hans. Og eina ráðið til þess er að láta náttúruna í friði, en hjálpa henni þar sem með þarf að vernda skógargróðurinn og auka hann.

Jeg geri ekki ráð fyrir, að Skógarkot eða Hrauntún þurfi að leggjast í eyði. Það er aðeins sauðfjárræktin, sem verður að hverfa, og sömuleiðis geitfje. Annar búskapur getur haldið áfram, og eins og hv. frsm. meiri hl. benti á, þá má gera ráð fyrir, að ábúendur þessara jarða geti haft talsverðar tekjur af mjólkursölu. Og jeg þarf ekki að fræða gamlan landsverkfræðing um það, að þegar bættir vegir koma austur í Laugardal, þá er auðvelt fyrir þessa túnlitlu bændur í Þingvallahrauni að afla sjer nægra heyja af Laugarvatnsvöllum. Þeir, sem austar búa, hafa nóg af landi til ræktunar, svo að vellirnir geta að mestu leyti orðið til notkunar bændum í Þingvallasveit.

Það er ekki meiningin með þessu frv. að fækka býlum í landinu, og því síður vakir nokkuð slíkt fyrir stj., eins og jeg vona, að þeir menn gangi úr skugga um, sem lesið hafa frv. hennar um byggingar- og landnámssjóð.

Eins og hv. 3. landsk. er kunnugt um, þá er Hallormsstaðarskógur friðaður fyrir geitum og sauðfje og sömuleiðis Háls- og Vaglaskógur. En skógarverðirnir, ábúendur þessara jarða, hafa bæði kýr og hross innan friðaða svæðisins.

Með frv. þessu er stuðlað að því, að hraunbreiðan milli gjánna klæðist aftur samfeldum skógi, eins og í fornöld. Bóndinn í Skógarkoti, sem hefir alist þar upp, hefir sagt mjer, að Bruninn, sem er svæði, er eyðilagðist af eldi vegna óhapps manns, er gerði þar til kola fyrir rúmum mannsaldri síðan, hafi verið vaxinn fallegum skógi eftir 30 ár. Eftir þessu mætti ætla, að skógurinn mundi taka miklum stakkaskiftum á næsta mannsaldri, ef hann nyti algerðrar friðunar fyrir sauðfje, og mundi þá verða fegurra um að litast í Þingvallahrauni heldur en nú.

Svo langt horfum við fram í tímann, sem erum með frv. um verndun Þingvalla, að við sjáum skóginn breiðast um berangurinn, sem nú er, og ná sama þroska og vexti eins og á dögum forfeðra okkar fyrir 1000 árum.

Hv. 3. landsk. lætur í veðri vaka, að ríkið muni tæplega rísa undir girðingarkostnaðinum og öðru því, sem af friðuninni leiðir. En þó að landið sje allstórt, er staðháttum þannig varið, að víða þarf enga girðingu. Fyrst og fremst ver vatnið á einn veginn, auk þess sem Almannagjá og Hrafnagjá eru gripheldar á löngum köflum, svo að þar sparast girðing að miklu eða öllu leyti. Girðingarkostnaðurinn, samanborinn við stærð hins friðaða svæðis, verður því ekki tilfinnanlega hár. Hitt er annað mál, að af því að þjóðvegir liggja um svæðið á tveim stöðum, þá þarf talsverða vörslu, eins og frv. gerir ráð fyrir. Jeg þekki bónda norður í Mývatnssveit, sem ráðist hefir í það að girða alt sitt land. Og þar sem slíkt er kleift einstökum mönnum upp á eigin spýtur, þá ætti ríkinu ekki að vera ofvaxið að standa straum af Þingvallagirðingunni.

Mjer þykir leitt, að hv. 3. landsk. tekur þá stefnu sem frsm. minni hl. að vera á móti þeim þjóðlega anda, sem kemur fram í þessu frv.: að vilja vernda og friða Þingvöll og hjálpa náttúrunni að klæðast aftur sínu forna skrúði.