13.02.1928
Efri deild: 21. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2288 í B-deild Alþingistíðinda. (1220)

23. mál, friðun Þingvalla

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson):

Jeg ætla, að veilurnar í þessu frv. komi best fram, þegar bornar eru saman þær framtíðarhugmyndir, sem koma fram hjá hæstv. dómsmrh. annarsvegar og hv. frsm. meiri hl. hinsvegar.

Hæstv. dómsmrh. vill ekki einungis vernda Þingvelli sjálfa, heldur alt Þingvallahjeraðið fyrir hverskonar ágangi og spjöllum af manna völdum. Hv. frsm. meiri hl. leggur aðaláherslu á að greiða sem best fyrir ferðamönnum, og færir það sem aðalástæðu fyrir friðuninni.

Hæstv. dómsmrh. vill láta rífa niður allar þær byggingar, sem nú eru á Þingvöllum og ætlaðar eru til þess, að hægt sje að veita gestum beina. Hv. frsm. meiri hl. gerir ráð fyrir fjölgun ferðamanna og auknum byggingum.

Hæstv. dómsmrh. leggur megináherslu á það, að landið sje varðveitt óspjallað. Hv. frsm. meiri hl. ætlast til þess, að lagðir sjeu vegir og gangstígar, til þess að greiða fyrir umferðinni.

Þannig koma þeir sinn úr hvorri áttinni, hæstv. dómsmrh. og hv. frsm. Hæstv. dómsmrh. hugsar að mestu leyti eða eingöngu um náttúruna, en hv. frsm. um fólkið. Og jeg verð nú að segja það, að jeg hallast að skoðun hv. frsm. Jeg vil meta fólkið mest í þessu máli. Jeg held, að við Íslendingar eigum svo mikið af náttúrufegurð, og það jafnvel uppi í óbygðum, að við þurfum ekki að leggja landauðnarkvaðir á byggileg hjeruð hennar vegna. Jeg er að vísu með því, að friðaður sje sjálfur þingstaðurinn og næsta umhverfi. En jeg sje ekki, að Þingvallahjeraðið beri svo af öðrum sveitum., og sjerstaklega ýmsum óbygðum stöðum, að ástæða sje til þess að gerfriða það alt.

Það eru öfgar hjá hæstv. dómsmrh., að rísa muni upp nýtt Grímsstaðaholt í grend við þingstaðinn. A. m. k. er auðvelt að koma í veg fyrir það. Í 5. brtt. minni við frv. er ákvæði um það, að ekki megi reisa byggingar á hinu friðaða svæði nema með leyfi stjórnarinnar. Sting jeg upp á, að sjerstök nefnd hafi umsjón með slíkum byggingum og geri tillögur um, hverjar leyfa skuli. Geri jeg ráð fyrir, að stj. leyfi aðeins þær byggingar, sem nefndin mælir með. Þetta er í raun og veru það sama og að leggja þetta á vald Þingvallanefndarinnar, og má gjarnan orða það svo, ef hæstv. dómsmrh. sættir sig betur við það. Í rauninni getur hann ekkert haft á móti þessum tillögum, nema ef hann óttast, að sá ráðherra kunni að koma síðar meir, sem víki frá venjulegum stjórnarfarsreglum um að taka tillögur til greina.

Að lokum vil jeg taka það fram, að mjer virðist kenna nokkurs ósamræmis í afskiftum þessa þings af skógræktarmálunum. Það er einkennilegt, að sama þingið, sem amast við kindum í Þingvallaskógi, skuli vilja leyfa að beita gripum í friðuð skóglendi annarsstaðar, a. m. k. um nokkurn tíma árs.