31.03.1928
Neðri deild: 62. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2306 í B-deild Alþingistíðinda. (1236)

23. mál, friðun Þingvalla

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg vil fyrst taka það fram, að brtt. hv. 2. þm. Árn. eru yfirleitt meira og minna til bóta, og óska jeg því eftir, að þær verði samþ. Ennfremur er ein aths. frá hv. 1. þm. Skagf. beinlínis til bóta málinu. Þyrfti smábreytingu á frv., þannig að viss ákvæði gangi í gildi í ár, svo að þegar megi taka til starfa, þótt sumt verði eftir eðli sínu að bíða. Jeg er þakklátur fyrir þessa bendingu, og verður hún tekin til greina.

Háttv. 1. þm. Skagf. óttaðist, að girðingar um hið friðlýsta svæði verði bæði miklar og ekki haldgóðar. En ótti hans er ástæðulaus. Hann gerir sem sje ráð fyrir, að girt verði meðfram vegum í gegnum hraunið, en þeir eru aðallega tveir, þjóðvegurinn austur í Laugardal og þjóðvegurinn norður Kaldadal. En jeg held það sje óþarfi. Maður verður að treysta það á vegfarendur, að þeir skilji ekki við opin hlið, en þau verða að sjálfsögðu að vera vel úr garði gerð, og þar að auki verður eitthvert eftirlit af gæslumönnum.

Girðingar á útjöðrum. svæðisins verða heldur ekki svo ýkjamiklar, því að það má heita sjálfvarið á þrjávegu: Að sunnan er vatnið, að vestan Almannagjá, sem er held girðing að mestu leyti — þyrfti kannske að fylla upp í skörð á stöku stað —, að austan er Hrafnagjá og Hlíðargjá á löngu svæði. Í raun og veru verður aðalgirðingin ekki nema þvert yfir hraunið norðan við Hrauntún, og það er engin geysi-vegalengd. Jeg þekki einstaka bændur, sem hafa girt meira en þetta, svo að ríkinu ætti ekki að verða skotaskuld úr því. Svæðið er sem sagt sjálfgirt á þrjá vegu, en að norðan vantar vörn frá náttúrunnar hendi, og þar þarf að koma einhverskonar girðing. Jeg held eðlilegast að byggja grjótgarð að norðanverðu. Efnið er við hendina og tiltölulega fljótgert að koma honum upp. Grjótgarður mundi að vísu verða heldur dýrari en gaddavírsgirðing í fyrstu, en endingarbetri svo miklu munar. Viðgerð á vorin yrði ekki önnur en sú, að hressa garðinn við, þar sem úr hryndi. En jeg er viss um, að slík girðing yrði ekki í neinni verulegri hættu. Presturinn á Þingvöllum hefir gert girðingar úr grjóti um haga og engjabletti, og hann segir mjer, að engum erfiðleikum sje bundið að halda þeim uppi. Þess vegna er, eins og jeg flyt málið, engin hætta á, að girðingarkostnaður verði nema hverfandi lítill.

Til sönnunar því, að ekki þurfi að girða meðfram vegum, vil jeg nefna Hallormsstaðarskóg. Þar liggur alfaravegur gegnum skóginn, en ekki girt meðfram, og ber ekki á öðru en vel gefist. Vegfarendur sjá sóma sinn í að loka hliðunum, og garðvörður lítur eftir, að þess sje gætt.

Þá kem jeg að aðstöðu bænda á hinu friðlýsta svæði. Það er ekki hægt bæði að vernda skóginn og hafa fje í honum. Auk 600 fjár, sem bændurnir á þessum slóðum eiga, koma mörg þúsund fjár þangað á sumrin til beitar. Mjer er kunnugt um, að bændurnir mundu verða fegnir að losna við þetta aðstreymi, því að þessi sægur spillir skóginum, sem von er til. En ekki yrði heldur leyft til lengdar að hafa þetta fáa fje, sem þeir eiga, því að það mundi spilla með vetrarbeit. Þar með er ekki sagt, að búskapur á býlum þessum þyrfti að leggjast niður. Hv. 1. þm. Skagf. hlýtur að þekkja vel frá sinni stjórnartíð skógvörsluna á Vöglum og á Hallormsstað. Þar er á báðum stöðunum myndarlegur búskapur, haldið vel við túnum og hafðar kýr á búi og góður sumarhagi fyrir þær í skóginum. Kofoed-Hansen skógræktarstjóri heldur því, sem kunnugt er, fram, að við Íslendingar getum skapað góða aðstöðu til kúaræktar í kjarrskógum landsins með því að girða þá og grisja. Og kúabú er hægt að hafa án skaða fyrir skóginn. En skógurinn í Þingvallahrauni er í stöðugri afturför, og er full þörf á að hefjast handa, ef hann á ekki með tímanum að eyðast með öllu. Það er alment álitið, að vetrarbeitin, þegar snjór er yfir alt, fari verst með skóginn. En það hafa sagt mjer bændur í Þingvallasveit, að mestar skemdir hafi orðið á vorin, þegar hart var og þeir urðu að beita á broddana og höggva af handa fjenu. Nú viljum við hjálpa til, að hraunið megi aftur fyllast fögrum skógi, þótt enginn af okkur fái að sjá hann í fullum blóma.

Það þarf ekki annað en líta í gamlar jarðabækur til þess að sjá, hvernig rányrkjan hefir eyðilagt sveitina. Um það ber vott sá fjöldi eyðijarða, sem þar eru taldar. Fyrrum hafa það verið býli, en lagst í eyði. Og það er fullljóst, eftir því sem á undan er gengið, að Þingvallahraunið getur enganveginn orðið sauðfjárland til lengdar. Þess vegna er síður en svo, að hjer sje um landsspjöll að ræða. Það er þvert á móti farið fram á að vernda land, sem lengi hefir verið skemdum undirorpið. Það er hliðstætt sandgræðslustarfseminni á Rangárvöllum og hliðstætt því, sem þarf að verða svo víða á landinu. Það þarf að hjálpa náttúrunni til þess að viðhalda fegurð og frjósemi landsins. En það, sem gerir þetta sjerstaklega knýjandi með Þingvelli, er helgi staðarins, sem veldur því, að stöðugt fleiri og fleiri Íslendingar krefjast þess, að staðnum sje haldið í heiðri og hin náttúrlega prýði hans vernduð sem best. Jeg held, að ástæðulaust sje að óttast, að Þingvallasveit verði á nokkurn hátt ver farin fyrir þetta. Það má að vísu gera ráð fyrir, að eitthvað verði að bæta bændum vegna þess að þeir geti ekki haft sauðfje eins og áður, en jeg þykist þess fullviss, að kúm mundi fjölga.

Það er nú fullráðið, að nýr vegur verði lagður til Þingvalla austur Mosfellsdalinn, sem sennilega verður fær að vetri til, og er þá aðstaðan til að koma afurðum á markaðinn öll önnur og betri. Á sumrin er meira en nógur markaður heima fyrir fyrir mjólk, egg og þess háttar. Þarna eru líka ágætir sumarhagar og aðstaða góð til að auka við túnin. Til dæmis er bóndinn í Skógarkoti altaf að færa út túnið, og hið sama mætti einnig gera í Hrauntúni. Margt fleira kemur hjer til greina.

Bóndinn á Arnarfelli kom til mín og sagði mjer, að veiðin í vatninu væri altaf að þverra. Það hefði verið dregið miskunnarlaust fyrir á hrygningarstöðvunum og silungur á vissum stöðum nærri upprættur. Nú yrði það ein afleiðing friðunarinnar, að fyrirdráttur yrði bannaður, að minsta kosti nyrst í vatninu, þar sem silungurinn þroskast, og mætti þá auk þess koma þar upp klaki. Þarna er alveg sama um að ræða og í landhelgigæslunni. Hún er gerð til þess að friða ungviðið, sem elst upp við landsteinana.

Jeg býst alls ekki við, að leggja þurfi niður eitt einasta býli, og jeg hefi sagt bændunum það, að jeg mundi bæði sem þm. og meðan jeg er ráðh. vinna á móti því, að þau leggist í eyði. Jeg vil aðeins breyta til um atvinnu þeirra, sem þarna búa. Til dæmis hygg jeg, að þarna geti allmargt fólk lifað á gistihúshaldi. Aðsókn er nú þegar mjög mikil og á vafalaust eftir að vaxa mikið, eftir því sem hlynt er að staðnum. Einn bóndinn þarna, bóndinn á Kárastöðum, hefir bygt eitt myndarlegasta sveitagistihús, sem til er á Íslandi, og það ber sig mjög vel, eftir því sem jeg best veit, og er þó betra að vera í Skógarkoti en á Kárastöðum, vegna ýmsra náttúruskilyrða.

Annarsstaðar þar, sem ríkið hefir friðað landsvæði vegna skógræktar, svo sem í Fnjóskadal og á Hjeraði, hefir búskapur heldur alls ekki lagst niður.

Það hefir verið gert ráð fyrir því að leggja gestagjald á Þingvöll, sem gangi til verndunar og fegrunar staðnum. Hversu mikið það verður, get jeg ekki sagt um, en jeg vil aðeins geta þess, að þegar sætið í bifreið til Þingvalla kostaði 40 krónur, fór þangað fjöldi fólks, og ekki er ólíklegt, að fólk, sem vann svo mikið til að komast þangað þá, mundi nú vilja vinna til að greiða 1–2 krónur í viðbót við það lága fargjald, sem nú er. Ýmsar aðrar tekjur mætti hafa síðar meir upp í kostnað við verndun staðarins, svo sem af veiði og bátaleigu um vatnið og fleira, sem jeg hirði ekki að telja hjer. Möguleikar eru þarna mjög miklir til skógræktar. Náttúran græðir sig auðvitað nokkuð sjálf, en hinsvegar er sjálfsagt að hjálpa til. Ennfremur verður að vera þarna varsla, eins og á Vöglum og Hallormsstað. Jeg býst við, að þarna þyrfti að vera skógarvörður, sem liti eftir girðingunni, o. s. frv.

Þá hefir því verið haldið fram, að með þessu sje gengið nærri hag bænda, sem búa utan við hið friðlýsta svæði. Það er alveg víst, að þingið skipar aldrei verndarnefnd, sem mundi sýna bændum ósanngirni. Hitt er annað mál, að hún mundi gæta þess að vernda staðinn fyrir hverskonar spellum. Til dæmis datt bóndanum á Brúsastöðum það í hug ásamt prestinum að virkja Öxarárfoss. Það var alls ekki ástæðulaust að hafa eftirlit með þessu.

Þá fanst hv. 1. þm. Skagf. óþarfi að kjósa þingnefnd til að annast um þetta. Jeg get fullvissað hann um, að það er ekki gert af vantrausti, hvorki á núverandi stj. nje hv. þm. (MG), þegar hann kemur í stj. næst. Það er gert vegna þess, að stjórnirnar hafa vanalega öðru að. sinna. Til minningar um það, að Alþingi hefði ákveðið að gefa Þingvöllum sína helgi aftur, þykir rjett, að allir flokkar eigi fulltrúa í Þingvallanefnd, sem sje varanleg. Mjer þykir betur hlýða, að á Þingvöllum ráði ekki flokksstjórn, heldur þingið sjálft.

Að þessu mæltu vil jeg vona, að þegar jeg nú hefi stigið þetta spor til samkomulags, sem brtt. mínar fela í sjer, þá beiti hv. þm. sjer ekki gegn því, að þetta frv. nái fram að ganga.