31.03.1928
Neðri deild: 62. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2335 í B-deild Alþingistíðinda. (1246)

23. mál, friðun Þingvalla

Jón Sigurðsson:

Það er nú eins og oftar, að hæstv. dómsmrh. hefir ekki látið sjá sig, og dugir ekki um það að fást, enda skal jeg ekki lengja umr. Það er eitt merkilegt við þetta frv., eins og reyndar fleiri frv. hæstv. stj., að því fylgja engar upplýsingar af neinu tægi, ekki einu sinni um lengd girðingarinnar. Um þetta hefir verið svo mikil óvissa, að mikill tími hefir gengið í deilu um það, hve löng girðingin verði, og stj. er síst fróðari en aðrir um þetta efni. Jeg hygg, að það muni vera leitun á svo fákænum bónda, sem ekki hugsar fyrir því áður en hann ákveður að girða land sitt, hve mikið hann þurfi að greiða í girðingarkostnað og hve löng girðingin er. Mætti þó gera strangari kröfur til stj. en slíkra manna. Það er merkilegt, að stj. skuli ekki hafa látið mæla þetta, því að ekki gat það þó kostað of fjár. En að vísu er þetta ekki meira en ýmislegt annað, sem fram hefir komið frá hæstv. stj. Að áliti kunnugra manna er talið, að girðingin muni verða um 30 km. löng. Háttv. frsm. minni hl. benti á það, að óhjákvæmilegt væri að girða meðfram öllum vegum. Hæstv. ráðh. svaraði því þannig, að nægilegt væri að hafa hlið á girðingunni, og þannig væri það í Hallormsstaðarskógi. Þetta er blekking; Hallormsstaðarskógur liggur í miðri sveit, en þetta er afrjettargirðing. Að slíkum girðingum hnappast fjeð í stórhópum, er líður á sumarið, einkum þegar hret koma. Ef einhver skilur svo eftir opið hlið af öllum þeim fjölda, sem þarna fer um, þá streymir fjeð inn í girðinguna og þarna verður þá ágæt fjárstöð, fjeð sjálfpassað og kemst ekki út aftur, er veður skána, og getur því gert stórtjón. Þetta viðurkenna allir, sem nokkuð þekkja til um víðlendar afrjettagirðingar. Það er áreiðanlegt, að ef þetta á að verða nokkuð annað en eintóm fjáreyðsla, þá verður að girða líka meðfram vegunum, eða setja vörð við hvert hlið að öðrum kosti, en slík girðing mundi kosta 80–100 þús. kr.

Hv. þm. Borgf. tók ýmislegt fram af því, sem jeg ætlaði að segja, svo að jeg hefi nú ekki miklu við að bæta.

Eitt eru allir sammála um, að nauðsynlegt sje að friða allstórt svæði af landinu á Þingvöllum, en ágreiningurinn er um það, hve stórt það á að vera. Það er hygginna manna háttur að fara hægt af stað og láta reynsluna kenna sjer, og ætti Alþingi að fara að þeirra dæmi og gera slíkt hið sama, þótt hæstv. dómsmrh. vilji viðhafa þá aðferðina, er ver gegnir. Jeg mun haga atkv. mínu þannig, að jeg óska ekki eftir, að flanað sje út í slíka vitleysu, eins og málið er nú reifað. Það hefir verið um það talað, að þetta mundi geta kostað um 100 þús. kr. Auðvitað er það ágiskun, eins og alt annað í þessu máli, en það er ekki ólíklegt, að sú fjárhæð sje nærri sanni, þegar greiða þarf bændum skaðabætur. Jeg hygg, að nóg muni þurfa að greiða fyrir hátíðahöldin 1930, þótt reynt yrði að spara að minsta kosti 40–50 þús. kr. á þessum lið. Jeg mun því greiða atkv. gegn frv. eins og það nú liggur fyrir, en greiða atkv. með brtt. hv. 2. þm. Árn.