03.03.1928
Neðri deild: 38. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 671 í B-deild Alþingistíðinda. (125)

1. mál, fjárlög 1929

Magnús Guðmundsson:

Jeg á hjer örfáar brtt., sem jeg ætla að fara fáeinum orðum um. Það er þá fyrst brtt. XVII á þskj. 353, um 2000 kr. framlag úr ríkissjóði upp í kostnað við Steinstaðalaug í Skagafirði, sem við þm. Skagf. flytjum saman.

Ástæðan til þess, að við berum fram þessa brtt. er sú, að nú má telja víst, að hækkað verði framlag ríkissjóðs til sundlauga úti um land úr 1/5 upp í helming kostnaðar, í samræmi við þá upphæð, sem þetta þing mun samþykkja til sundhallar hjer í Reykjavík.

Það stendur svo á um þessa sundlaug, að hún var endurbygð á síðastl. sumri, og mun því vera svo að segja einasta sundlaugin á landinu, sem bygð er á þessum tímamótum, þegar hlutfallinu er breytt úr 1/5 í helming kostnaðar. Jeg veit ekki betur en að þessi endurbygging laugarinnar hafi kostað 16–17 þús. kr., svo að þótt veittar væru 4 þús. kr., yrðu þeir, sem þann kostnað bera, ver úti en þeir, sem hjer eftir vilja byggja sundlaugar. Jeg vona því, að hv. dm. virðist þetta sanngjörn krafa.

Þá eru tvær brtt. við 18. gr. Önnur er um lífeyri eða eftirlaun til Guðjóns Guðlaugssonar. Hann er nú kominn á áttræðisaldur og er fluttur hingað til Reykjavíkur fyrir nokkrum árum, en var, eins og kunnugt er, um langt skeið einhver mesti atkvæðabóndi þessa lands. Hann átti sæti hjer á þingi um nokkur ár, og var þá talinn bæði af andstæðingum sínum og samherjum einhver mikilhæfasti þingmaður. Hann hefir verið einhver mesti brautryðjandi úr bændastjett. En hjer þarf jeg ekki að nefna verk hans; þau eru hv. þm. svo kunn. En jeg get aðeins bent á stofnun ræktunarsjóðsins, sem hann átti mikinn þátt í, og gaddavírsmálið. Hann hefir nú keypt sjer býli hjer í nánd við Reykjavík, og hann er enn svo mikill ræktunarmaður, að hann getur ekki látið vera að leggja alt, sem hann getur, til ræktunartilrauna. Jeg vona því, að hv. þdm. sjái ekki eftir þessum styrk til hans.

Þá er brtt. XXIII á þskj. 353, um 300 kr. styrk til Önnu Bjarnadóttur, ekkju Hjálmars Lárussonar.

Hann er nú dáinn fyrir nokkrum mánuðum, en þar sem þingið fann ástæðu til þess að styrkja hann vegna langvarandi heilsuleysis, þá finst mjer líklegt, að þingið vilji nú styrkja ekkju hans, sem lifir hann með 6 eða 7 börnum, sumum kornungum.