04.04.1928
Neðri deild: 65. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2342 í B-deild Alþingistíðinda. (1253)

23. mál, friðun Þingvalla

Frsm. minni hl. (Magnús Guðmundsson):

Jeg ætla að byrja þar, sem hv. þm. endaði. Hann hjelt því fram, að það hefði verið rjett hjá sjer að tala um rýrnun fjallskila. En það er ekki rjett, því það er aukning fjallskila á þeim mönnum, er eiga að smala landið. Íþynging fjallskila er betra, því það þýðir hið sama og að auka þau. En rýrnun er rangt.

Þá talaði hv. þm. um það, hvenær lögin kæmu til framkvæmda. Jeg fór þar eftir því, sem stendur í frv. Þar segir svo, að landið skuli varið ágangi af sauðfje og geitum. Ef því brtt. hv. 2. þm. Árn. verður samþykt, svo lögin gangi strax í gildi, þegar konungur hefir skrifað undir þau, þá gildir einnig þetta ákvæði strax, ef brtt. við 1. gr. verður samþ. Hv. þm. var eitthvað að tala um fardagaár. Eiga lögin þá ekki að ganga í gildi? Jeg skil ekki, hvað hv. þm. á við. — Hið eina skynsamlega er það, að fresta framkvæmd laganna og samþykkja ekki till. hv. 2. þm. Árn. Ef lögin koma þegar til framkvæmda, þarf strax að semja við bændurna á þessu svæði og óheimila þeim að hafa fje sitt einn dag á svæðinu eftir það. En samningarnir hljóta að taka tíma. Þeir þurfa að fá að skýra sína aðstöðu og gera grein fyrir þeim skaðabótum, er þeir telja sig þurfa að fá fyrir þann rjett, sem af þeim er tekinn, að fá að hafa fje sitt á þessu svæði. Í 3. gr. frv. er ekki talað um bætur fyrir annað en jarðarnytjar. En nú eru þarna hús líka. Hvað á að gera við þau, ef ábúendurnir vilja ekki vera þarna lengur? Á að rífa þessi hús niður, eða á að halda þarna við þessum kompum sem eign hins opinbera? Í 3. gr. frv. er aðeins talað um afnotarjett bænda, en það hefði líka þurft að taka fram um þær eignir, sem þeir eiga þarna. Ef brtt. meiri hl. verður samþ., er það þó skárra en þetta. Þá mega þó bændurnir vera þarna til fardaga 1930 samkvæmt skilningi hv. 2. þm. Árn. Er það mikill munur fyrir bændurna, í samanburði við að verða að víkja burtu með fje sitt á ákveðnum degi, sem ekki er að vita, hver verður, því bændurnir í Þingvallasveitinni geta ekki fylgst með í því, hvenær konungur kann að skrifa undir þessi lög úti í Kaupmannahöfn. Jeg vil því leggja það til, að þessi hv. deild samþykki þessa frestun á framkvæmd laganna, svo bændurnir á þessu svæði fái þó ráðrúm til að taka sig saman.