04.04.1928
Neðri deild: 65. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2347 í B-deild Alþingistíðinda. (1256)

23. mál, friðun Þingvalla

Frsm. minni hl. (Magnús Guðmundsson):

Jeg get ekki annað en undrast það, að nokkur maður skuli álita það sama, hvort lögin koma til framkvæmda þegar í stað eða 1930. Eins er um það, ef lögin ákveða, að eitthvað skuli gert, en það er ekki framkvæmt, þá er það brot á lögunum. Það er óhjákvæmilegt að girða þetta svæði, en ef svo er, að lögin eiga að koma til framkvæmda þegar í stað og ekki er varið svæðið, þá eru lögin ekki haldin.

Skil jeg því ekki, að nokkur vafi geti leikið á því, hvort till. á að samþ.

Hv. 1. þm. Reykv. vildi kasta öllum sínum áhyggjum upp á Þingvallanefndina. Sú nefnd er ennþá ókosin, og því getur stjórnin ekkert sagt um það, hvernig framkvæmdir þessa máls muni verða. Það er nefndarinnar að sjá um þær, en ekki stjórnarinnar.

Mjer skildist líka á ræðu hv. þm., að honum fyndist ekkert gera til, þótt svæðið sje svona stórt, því að Þingvallanefndin mundi sjá um það. Jeg hygg, að ekki muni auðvelt að verja skóginn fyrir ágangi sauðfjár, ef svæðið er ekki girt, en í lögunum stendur, að svæðið skuli varið, eftir því sem fært kann að reynast. Það dettur engum í hug að efast um það, að hægt sje að girða svæðið, en það verður afardýrt.

Og ef Þingvallanefndin vill hlýða lögunum, þá er augljóst, hvað hún á að gera, en sje það meiningin, að Þingvallanefndin geti haft þetta eins og hún vill, þrátt fyrir ákvæði laganna, þá er öðru máli að gegna, en þá eru lögin brotin, og kann jeg illa við það.