04.04.1928
Neðri deild: 65. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2348 í B-deild Alþingistíðinda. (1257)

23. mál, friðun Þingvalla

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Út af orðum hv. 1. þm. Reykv. vil jeg geta þess, að það verður í öllum aðalatriðum Þingvallanefndin, sem ræður framkvæmdum um friðun Þingvalla. En af því að mjer virtist hann æskja þess að heyra álit stjórnarinnar á þessu, þá vil jeg svara því, að jeg hygg því best lýst þannig, að framkvæmdirnar verði með svipuðum hætti og kristnitakan á Íslandi. Þá var leyft að blóta á laun, ef það komst ekki upp, og á sama hátt hygg jeg, að best verði nú að miðla sem mest málum og þoka framkvæmdunum áfram eins og heilbrigð skynsemi benti til.

Út af till. hv. 2. þm. Árn. vil jeg geta þess, að hinar fyrri eru aðallega málsbreytingar og til skýringar, og ennfremur er 6. brtt. hans nokkuð svipuð og 1. brtt. nefndarinnar. En jeg álít, að það, sem fyrir mjer vakir, nyti sín betur, ef ákvæðið um stundarsakir; að 5.–8. gr. komi til framkvæmda þegar í sumar, yrði samþykt, vegna þess að fyrstu atriðin, um friðun skógarins, taka nokkurn tíma, en annars hygg jeg, að niðurstaðan yrði hin sama, hvort sem brtt. verða samþ. eða frv.

Jeg hefi nú síðan mál þetta var til 2. umr. átt tal við bóndann í Skógarkoti, sem er stærsti sauðfjáreigandinn í hrauninu. Tók hann mjög vel í þetta mál, svo að gera má sjer góðar vonir um það, að samkomulag náist milli hans og nefndarinnar um það, að hann búi þarna áfram með breyttum lifnaðarháttum.

Aðalatriðið í máli þessu er það, hvort menn hallast að þeirri stefnu að friða Þingvelli eða ekki. Jeg er hv. 1. þm. Reykv. alveg sammála um það, að heillavænlegast muni að fara að öllu með hægð og framkvæma friðunina smátt og smátt.