08.03.1928
Neðri deild: 42. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2361 í B-deild Alþingistíðinda. (1276)

141. mál, bankavaxtabréf

Fjmrh. (Magnús Kristjánsson):

Jeg ætla ekki að tefja umr. mikið úr þessu. Því hefir verið haldið fram, að ekki sje hægt að benda á, að útlánsstarfsemi veðdeildarinnar hafi verið með þeim hætti, að hún bakaði ríkissjóði tjón, þannig að ekki kæmi full greiðsla á þeim lánum, sem veitt hafa verið. Jeg býst ekki við, að hægt sje að segja, að mikil töp hafi átt sjer stað í þessu efni. En það stafar eingöngu af því, hve varlega hefir verið lánað. Jeg veit ekki betur en það hafi orðið að ganga að eignum til þess að fá lánin greidd, og það hlýtur altaf einhver að tapa á því. Og þeir, sem kunnugir eru húsabraski í Reykjavík og víðar, hljóta að gera sjer ljóst, að ekki getur það alt verið á heilbrigðum grundvelli reist. Það gefur nokkrar bendingar í þá átt, að ekki sje alt með feldu, þegar Lögbirtingablaðið flytur í hvert einasta skifti, sem það kemur út, fjölda auglýsinga, þar sem auglýstar eru eignir til sölu fyrir skuldum og gjöldum til bæjarins, sem í sumum tilfellum nema 10–20 krónum, máske 100. Það sýnir, að sægur af húseigendum hjer í bænum hefir flosnað upp og ekki getað staðið straum af greiðslum, er þeim bar.

Annars þýðir ekki að fjölyrða frekar en komið er. Jeg tel enn sem komið er alveg rjett að hugsa til að breyta svo til sem gert er ráð fyrir í frv. En hinsvegar var mjög æskilegt að fá umræður um þetta í þinginu, því að þess úrskurður ræður og það verður að taka á sig ábyrgðina.