24.03.1928
Neðri deild: 56. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2366 í B-deild Alþingistíðinda. (1280)

141. mál, bankavaxtabréf

Gunnar Sigurðsson:

Jeg ætla ekki að halda langa ræðu, en jeg get ekki látið þetta mál fara svo út úr deildinni, að jeg taki ekki til máls.

Það hefir verið upplýst af hæstv. fjmrh., að í veðdeildinni eru óborguð lán að upphæð ca. 14 miljónir króna. Þó að mönnum kunni að vaxa þessi upphæð í augum, er hún áreiðanlega tiltölulega mjög lág. Ef bankinn hefði farið eftir þeim grundvallarreglum, sem annarsstaðar tíðkast, að nota fasteignir sem aðaltryggingargrundvöll, væri hagur hans betri nú en hann er. Jeg hefi haldið því fram áður, að veðdeildarstarfsemi ætti að vera hjá sjerstökum banka. En úr því að það fæst ekki, hlýt jeg að fylgja því, sem hjer er farið fram á, því að svo er mjer kunnugt um, hvað lánsþörfin er mikil. Það verður aldrei hægt að draga úr aðstreyminu til bæjanna með því að neita mönnum um aðgengileg lán til bygginga. Það er mjög eðlilegt, að menn leggi þar peninga í húsabyggingar, sem mest er upp úr því að hafa. Það er áreiðanlegt, að nú eru veð í húseignum í Reykjavík bestu veðin, sem hægt er að fá hjer á landi. Jeg er ekki hræddur um, að neinn afturkippur eigi sjer stað meðan útgerðin er við lýði.

Ástandið er óþolándi eins og það er og hefir verið um þá vesalings menn, sem eru að reyna að koma sjer upp hús- um. Þeir hafa orðið að flýja til hreinna okrara, sem taka 20% í öðrum veðrjetti í húsum. Það skýtur mjög skökku við það, sem er annarsstaðar, að hjer geta þeir menn, okrararnir, haft tryggustu veðin. Það er mjög leitt, hvað veðdeildin hefir veitt lánin lág, miðað við það, sem þau mega vera eftir lögum og reglugerð veðdeildanna. Það er áreiðanlegi, að þetta mál er eitt af þeim, sem mest nauðsyn er á, að Alþingi láti til sín taka. Jeg tel því, eins og jeg tók áður fram, að þessari þörf eigi að skipa á þann hátt, að stofnaður verði fasteignabanki, þar sem sveitunum verður trygður forgangsrjettur að lánum. Jeg bar einu sinni fram till. um það efni, og jeg er viss um það, að ef veðbankalögin hefðu komist til framkvæmda, þá væri betur sjeð fyrir lánsþörf bænda en nú er. Aðstaða bænda utan af landi er miklu erfiðari til þeirra lána, sem nú eru fáanleg, heldur en þeirra, sem hjer eru búsettir. Það er mín bjargföst skoðun, að seðlaútgáfan ætti að vera í sambandi við fasteignaveðbankann, frekar en í sambandi við nokkurn annan banka, sem allir standa á valtari grundvelli heldur en fasteignaveðbankinn.