24.03.1928
Neðri deild: 56. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2367 í B-deild Alþingistíðinda. (1281)

141. mál, bankavaxtabréf

Fjmrh. (Magnús Kristjánsson):

Hv. 2. þm. Rang. hefir nú lýst því neyðarástandi, sem menn hjer í bæ ættu við að búa um að fá lán til allra hluta og sem gengi svo langt, að menn væru neyddir til að eiga skifti — jeg held jeg hafi heyrt það rjett — við okrara. En jeg hygg nú, að ekki sje nóg að líta aðeins á aðra hlið þessa máls. Það þarf einnig að líta á hina, og hún er sú, að þegar fólk, hjer sem annarsstaðar, safnast fyrir á einn stað, þá þurfi líka að vera einhverjar auðsuppsprettur til staðar, sem beri uppi nauðþurftir þessa fólks. En það sjá nú allir menn, að þótt hjer sjeu til segjum um 30 togarar, hversu fráleitt það er, að þeir beri uppi þarfir alt að 25 þús. manns. Jeg sje því ekki vel, á hvaða framleiðslu þessi bær á að hafa lífsuppeldi sitt til frambúðar. Það er að vísu svo, að hjer hafa komið fram nú um stund margvíslegir atvinnuvegir, en þótt þeir hafi blómgast nú um hríð, þá liggur mjer við að segja, að sumir þeirra sjeu óþarfir og margir svo vaxnir, að þeim er lítt að treysta til farsældar, þegar til lengdar lætur. Hjer er nú við ýmsar öfgar að stríða. Annarsvegar er talað um atvinnuleysi svo til vandræða horfi. En hinsvegar er það þó svo í raun og veru, að oft er ekki hægt að fá mann til að gera nokkurt handarvik, hvað sem við liggur. Þetta er af því, að fjöldinn vill ekki vinna að því, sem talist getur framleiðsluvinna. Það er eiginlega nokkuð hlálegt þetta, því hjer eru fleiri hundruð eða þúsundir manna, sem fúslega taka að sjer ýms innanhússtörf, þó ekki sem hjú, því það er nú ekki lengur móðins að ráða sig svo, heldur sem verslunarfólk, skrifstofufólk og þess háttar. Umsækjendur skifta jafnan hundruðum um hverja eina slíka stöðu, sem losnar, hversu auðvirðileg sem hún er. — Þótt það því sýnist fara vel á yfirborðinu, að bærinn stækki og veitt sjeu lán til þess að byggja fyrir ný hús, þá hygg jeg ekki rjett að ýta mikið undir það aðstreymi, sem þegar er orðið til bæjarins, með því að veita ótakmarkað fje til þess, að alt þetta geti haldið áFrsm.

Jeg veit það vel, að sumar íbúðir, sem fólk hjer notar, eru mjög ljelegar. En það er alls ekki við því að búast, að fólk, sem fátækt er, geti greitt þá húsaleigu, sem húseigendur telja nú nauðsynlegt að heimta, hvort heldur það stafar nú af of miklum kröfum, eða þá hinu, að dýrtíðin sje hjer svo mikil, að ekki sje von um, að atvinnulíf geti blómgast hjer undir því fargi.

Jeg skal látá ósagt, hvor ástæðan er þessu valdandi. En jeg hefi þó heyrt það sagt, að Reykjavík sje dýrasti bær í heimi að lifa í. Og húsaleiga mun vera þriðjungi hærri hjer en annarsstaðar á landinu. Jeg mun nú ekki fara að rekja orsakir til þess, að svo er, en hygg, að það stafi þó í fyrsta lagi af því, hve lóðir eru hjer óhæfilega dýrar. Og þá í öðru lagi af því, hve — mjer liggur við að segja — óhæfilega mikill íburður á sjer stað um flest, sem að húsabyggingum lýtur. Hjer er ekki bygður húskofi svo, að ekki þurfi að fá húsameistara til að gera teikningu af honum. Þetta er nú sjálfsagt gott, en það er sagt, að þessir menn taki æðihátt gjald fyrir verk sitt. Þá verður að hafa minst tvo lærða og dýra verkstjóra yfir byggingunni, sem krefjast mikils kaups, miðað við þá vinnu, er þeir leggja sjálfir Frsm. Fyrirkomulagið alt sýnist því vera miklu dýrara en það þyrfti að vera. Alt þetta bendir til þess, að afturkast muni koma fyr eða síðar, og því sje varhugavert að verja fje takmarkalaust til nýrra bygginga, sem ekki eru reistar á grunni tryggara atvinnulífs en nú horfir við. Jeg vildi vekja athygli hv. þd. á þessu, svo hún gæti einnig frá þessu sjónarmiði athugað, hvað langt beri að fara í því að verja fje til að auka vöxt — en ekki viðgang — þessa bæjar. Jeg býst við því, að sumir muni hneykslast á þessu, en það verður þá að hafa það. Jeg tel rjettara, að sannleikurinn komi fram í þessu máli.