24.03.1928
Neðri deild: 56. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2372 í B-deild Alþingistíðinda. (1283)

141. mál, bankavaxtabréf

Gunnar Sigurðsson:

Hæstv. fjmrh. fór hógværum orðum um þá hlið þessa máls, að ekki væri rjett að veita fje takmarkalaust til húsagerðar hjer í Reykjavík og auka þar með straum fólksins hingað frá sveitunum. Jeg vil taka undir það með honum, að ekki sje rjett að styðja fólk meira en orðið er til að flytja til kaupstaðanna úr sveitunum, þó sjálfsagt verði erfitt að stöðva þann straum. En jeg vil þó benda á eina hlið þessa máls, sem enn hefir ekki verið rædd. Hún er sú, að ef menn fá að byggja, þá lækkar einnig húsaleigan, og það er besta ráðið til að lækka þá dýrtíð, sem nú er hjer. Það mun vera rjett, að Reykjavík er dýrasti bær í heimi. En grundvöllur þess er, hve mikil óstjórn hefir verið á peningamálunum hjer og er enn þann dag í dag. Það er rjett, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði, að veðdeildin hefir ekki lánað meira en 25–30% út á verðmæti húsanna hjer. Þetta hefir oft glapið þeim sýn, sem hafa ætlað að byggja, einkum efnalitlum mönnum, sem hafa staðið í þeirri meiningu, að þeir fengju hærri lán úr veðdeildinni. En þetta hefir svikið og þeir hafa þá orðið að nota óeðlilega dýr lán, til þess að þurfa ekki að stöðva bygginguna. Þetta hefir svo orðið til þess, að húsin hafa orðið óeðlilega dýr og húsaleigan eftir því. Það er því spurning, hvort ekki væri rjett að veita hærri lán út á hús og aðrar fasteignir en nú er gert. Þegar litið er á þau lán, sem veitt hafa verið, þá eru þau lítil í samanburði við eignir landsins. Þetta hefir verið svo óþolandi ástand, að fá ekkert út á 2. veðrjett húseignanna hjer, að jeg er hissa á því, að það hefir ekki verið gert að blaðamáli fyrir löngu. Vil jeg beina þeirri ósk til hæstv. fjmrh., að hann taki þetta mál vel til yfirvegunar og reyni að koma því í betra horf. — Það gladdi mig, hve bankastjórnin tók vel í þetta mál, og jeg veit, að það eru margir fleiri, sem skilja það vel, hve mikill munur það er að lána út á tryggar fasteignir heldur en svo sem gert hefir verið út í óvissu, og því er nú komið sem komið er með hag bankanna. Jeg vil treysta því, að það sje meining stjórnarinnar að útvega mönnum hagkvæm lán út á tryggar fasteignir, og vil fylgja henni í því.