27.03.1928
Neðri deild: 58. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2378 í B-deild Alþingistíðinda. (1290)

141. mál, bankavaxtabréf

Jón Auðunn Jónsson:

Það er ekki komir úr prentsmiðjunni brtt., sem jeg flyt við þetta frv., en jeg vænti þess, að hæstv. forseti vilji taka til greina skriflega brtt. Brtt. mín fer í þá átt að fella niður úr 6. gr. „kaupstaðir eða kauptún“. Eins og menn vita, er ekki heimilt fyrir veðdeild Landsbankans að lána út á hús, nema því aðeins, að húseignin standi á verslunarlóð. En verslunarlóð er í smærri kaupstöðum oft mjög óákveðin, og það er til dæmis oft, að menn byggja í athugaleysi rjett fyrir utan takmörk verslunarlóðarinnar. Mjer finst engin ástæða til að útiloka þá menn, sem hafa bygt rjett við takmörk lóðarinnar, frá því að fá lán, en það hefir verið gert, af því að þetta ákvæði hefir staðið í lögunum um veðdeildina. Til dæmis getur ekki veðdeildin, eins og lög hennar eru, lánað út á hús vestan við verslunarlóð Reykjavíkur, í Seltjarnarneshreppi. þó að það sje aðeins örfáa metra frá verslunarlóð Reykjavíkur, nema um jarðarhús sje að ræða. Af þessu getur leitt hin mestu óþægindi. Það er oft, að hús, sem eru utan við verslunarlóðina, eru verðmætari og í alla staði eins vel hæf til leigu og sölu og hús, sem eru á verslunarlóðinni. Mjer finst ótækt, að það standi áfram í lögunum, að óheimilt sje að lána út á önnur hús en þau, sem eru fyrir innan takmörk verslunarlóðarinnar.