27.03.1928
Neðri deild: 58. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2384 í B-deild Alþingistíðinda. (1301)

141. mál, bankavaxtabréf

Ólafur Thors:

Það er aðeins örstutt aths. Jeg sá það á svip hv. þm. V.-Húnv., hverskonar viska það var, sem hann var áðan að hvísla að hv. sessunaut sínum (JAJ), því að hann hló svo hjartanlega, þegar hv. þm. N.-Ísf. sagði þessa reginvitleysu. Jeg get ekki stilt mig um að skýra hv. deild frá því, að það, sem hv. þm. hvíslaði, var það, að þetta væru heimildarlög. Það átti svo sem að þjappa að mjer fyrir það, að jeg gerði ráð fyrir því, að þessi lög, ef samþykt verða, komi til framkvæmda. Jeg veit það að vísu vel, að þetta eru heimildarlög og að hægt er að fresta framkvæmd þeirra. En sje það meiningin, að þau eigi ekki að koma til framkvæmda, þá sje jeg ekki, hvaða ástæða er til að leggja kapp á, að þessi brtt. verði samþykt, og ljeleg rök eru það fyrir ágæti brtt., að hún sje skaðlaus af því að sjálf lögin eigi ekki að komast í framkvæmd. Jeg bið svo hv. þdm. að hafa það hugfast, að stjórn veðdeildarinnar er andvíg þessari tillögu af góðum og gildum ástæðum, sem jeg hefi drepið á.