27.03.1928
Neðri deild: 58. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2385 í B-deild Alþingistíðinda. (1303)

141. mál, bankavaxtabréf

Jón Sigurðsson:

Jeg skal ekki tefja tímann. Aðeins vildi jeg minnast á hina skriflegu brtt. hv. þm. N.-Ísf. Jeg legg eindregið til, að sú till. verði samþykt. Jeg lít svo á, að það sje á valdi bankastjórnarinnar að meta í hverju einstöku tilfelli veðhæfi þeirra eigna, sem láns er beiðst út á, og megi því hafa þetta ákvæði rúmt í lögunum. Jeg tel líka, að hingað til hafi frekar verið lánað of lágt en of hátt. Jeg hygg, að það geti verið fulltrygt veð í húsum, sem standa rjett við kaupstaðalóðir. Eins má segja um smábýli í sveitum, sem svo lítið land fylgir, að þau teljast ekki jörð með sjerstöku hundraðatali. Þau eru venjulega reist af atorkumönnum, sem byrja smátt, en ætla sjer að rækta umhverfis býlin og kaupa síðar land til viðbótar, en styðjast að öðru leyti við aðra atvinnu. Þar sem slík býli eru vel í sveit komin, er engin hætta á, að þau leggist aftur í auðn, því þótt sá fyrsti hverfi frá þeim, þá eru þau mjög eftirsótt og er því altaf verð í þeim. Jeg tel því órjettlátt að útiloka slíka menn frá slíkum lánum, sem hjer um ræðir. Þótt þessi býli heyri ekki undir nýbýli vegna landleysis, þá eru þó þessir menn brautryðjendur, sem vert er að styrkja. Hv. 2. þm. G.-K. sagði, að ef mikið ætti að lána út á þetta, þá gæti það verið hættulegt. En sje venjulegt mat og varfærni viðhöfð, þá tel jeg hættuna enga. Jeg vil því leggja til, að till. hv. þm. N.-Ísf. verði samþykt.